137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[16:11]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Við erum komin í 2. umr. um frumvarp um breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti. Þetta er ekki stórmál. Ég var því miður ekki viðstödd afgreiðslu á málinu út úr nefnd en geri fastlega ráð fyrir að ef ég hefði verið viðstödd væri ég á nefndarálitinu þar sem hér er ekki um neitt tímamótamál að ræða. Það er verið að tala um að fá að setja reglugerð. Það eru lagðar til breytingar á annars vegar lögum um samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu um neytendavernd og hins vegar lögum um lögboðin dómsmál til verndar heildarhagsmunum neytenda. Tilgangur frumvarpsins er að ljúka innleiðingu á tilskipun 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti en efni tilskipunarinnar hefur verið tekið upp í íslenskan rétt að undanskilinni 16. gr. hennar. Þær breytingar sem um ræðir felast í breyttum tilvísunum til tilskipunar sem hafa þegar verið innleiddar og þeir sem hafa kíkt á breytingartillögu nefndarinnar sjá að þær snúast meira og minna um tilvísanir en ekki efnisbreytingar.

Helstu athugasemdirnar sem gerðar voru í 1. umr. um málið voru um setningar í greinargerð frumvarpsins og það má væntanlega rekja til biturrar reynslu okkar á undanförnum mánuðum af því að hafa innleitt Evrópurétt, í sumum tilvikum hugsunarlaust. Hér stendur í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Innleiðing síðari breytinga á viðaukanum, sem geymir upptalningu á ákveðnum EES-gerðum á sviði neytendamála, yrði í formi reglugerða sem er mun einfaldara en að breyta lögum hverju sinni. Það er því til mikils hægðarauka að breyta lögunum með þessum hætti enda þarf þá ekki að taka upp breytingar í lögin í hvert skipti sem breytingar eru gerðar á viðauka tilskipunarinnar.“

Það er kannski ekki að undra að hárin hafi ýfst á hnakka þingmanna þegar þeir sáu þessa setningu frá viðskiptaráðuneytinu um að embættismenn telji til mikils hægðarauka að sleppa því að breyta lögum en fara þess í stað beint í gegnum reglugerðir. Enda er kannski óþarfi að trufla þingmenn við ýmis önnur mikilvæg störf eins og að fjalla um hvort endurskoðendur eða sérfróðir matsmenn megi gefa yfirlýsingu um samruna.

Þetta eru þau mál sem við fjöllum um núna í miðju efnahagshruninu. Þegar hafa komið fram athugasemdir við áherslur hæstv. félagsmálaráðherra í sambandi við þau mál sem hann leggur fram og ég held að það megi að vissu leyti kvarta undan sömu vinnubrögðum hjá hæstv. viðskiptaráðherra. Það er spurning hvort þetta sé mál sem ástæða er til að ræða á sumarþingi, sérstaklega í ljósi þess að staðan á Íslandi er enn þá mjög erfið. Hér hafa ekki orðið miklar breytingar frá því að við ræddum þetta í fyrstu umferð, þrátt fyrir að við séum búin að senda þessa fínu umsókn tvisvar sinnum inn til ESB. Í annað skiptið afhenti sendiherra okkar í Svíþjóð hana og svo fór hæstv. utanríkisráðherra aftur til Svíþjóðar og endurafhenti umsóknina Evrópusambandinu. Við skulum því vona að umsóknin sé komin til skila til Evrópusambandsins. Það hefur þó svo sem ekki breytt neinu fyrir okkur, við erum enn að fást við stór vandamál. Þess vegna finnst manni svolítið einkennilegt að við séum að ræða um innleiðingar á gerðum og reglugerðum. Í Morgunblaðinu í morgun var t.d. bent á að hæstv. félagsmálaráðherra er núna loksins búinn að ákveða að skipa nefnd til að huga að vandamálum heimilanna. Núverandi flokkar eru búnir að skipa ríkisstjórn frá því í febrúar og hafa gefið sér ágætan tíma til að huga að vandamálum heimilanna á Íslandi. Í fréttum kom einnig fram að vanskil Íbúðalánasjóðs hafa nú tvöfaldast en við inni á þingi ætlum hins vegar að fjalla um reglugerðir og mjög mikilvægar ESB-tilskipanir.

Í nefndarálitinu leggjum við til eina breytingu á orðalagi frumvarpsins. Lagt er til að í stað orðanna „sem innleiða á“ í c-lið 1. gr. frumvarpsins komi orðin: ,,sem innleiddar hafa verið“. Þarna erum við að ítreka að það á ekki að vera embættismanna að ákveða hvað eigi að innleiða eða flýta fyrir heldur sé algerlega kýrskýrt að það þurfi fyrst að innleiða viðkomandi gerðir í íslenska löggjöf áður en þær eru settar inn í reglugerðina. Hér segir, með leyfi forseta:

„Er þetta lagt til svo skýrt sé að ekki verður sett ný eða gerð breyting á reglugerð í þá veru að bæta við upptalningu þeirra laga sem teljast lög til verndar hagsmunum neytenda nema efni hennar hafi áður verið tekið upp í íslenskan rétt.“

Þetta stóra og mikilvæga mál ræðum við nú á þessu sumarþingi.

Ég fagna því að við höfum klárað eitthvað og einhver mál komist alla vega út af þinginu. Það skiptir íslenskan almenning þó kannski mjög litlu máli.