137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[16:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að víkja að 1. gr. í frumvarpinu og þá c-lið hennar sem hljóðar svo, virðulegi forseti: „Viðskiptaráðherra skal í reglugerð kveða á um að viðauki við reglugerð samkvæmt 1. mgr. og breytingar á honum sem innleiða á skuli hafa reglugerðargildi hér á landi.“

Viðskiptanefndin hefur ákveðið að leggja til breytingar á þessu og í stað orðanna „sem innleiða á“ komi orðin: sem innleiddar hafa verið. Eins og ég sagði í ræðu minni er ekki um að ræða orðalagsbreytingu heldur klárlega efnisbreytingu. Sé frumvarpið lesið bókstaflega var verið að opna reglugerðarheimild fyrir hæstv. viðskiptaráðherra til að gera breytingar á viðaukanum við reglugerðina án þess að tryggt væri að þessi atriði hefðu verið tekin inn í íslenskan rétt. Ég veit ekki hvernig ber að skilja þetta. Ég vil sakir góðsemi minnar gefa mér að hér hafi verið um að ræða hrein glöp af hálfu viðskiptaráðuneytisins við undirbúning málsins sem hv. viðskiptanefnd er að lagfæra. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. formann nefndarinnar hvort ástæða hafi verið talin til að ætla að með textanum í frumvarpinu hefði verið opnuð heimild til að taka upp í viðaukann atriði sem ekki hefðu verið tekin upp í íslenskan rétt. Um þetta spyr ég vegna þess að sérstaklega er nefnt í nefndarálitinu að verið sé að girða fyrir að það sé gert. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að óbreytt frumvarp hefði mátt túlka þannig að það gæti verið opnun á að taka eitthvað inn í viðaukann án þess að það lægi fyrir í íslenskri löggjöf.