137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[16:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrra andsvari mínu kom fram að ég teldi allar líkur á því að hér væri um að ræða hrein glöp af hálfu ráðuneytisins en ekki ásetning um að læða inn heimildum til að taka inn í reglugerðarviðauka ákvæði sem ekki væri búið að lögfesta á Alþingi. Andsvar hv. þingmanns er staðfesting á þeirri tilgátu minni. Auðvitað hef ég ekki aðstæður til að kynna mér þetta en ég ætlaði ekki ráðherra eða neinum öðrum að standa þannig að málum að lauma inn í löggjöfina heimildum til að taka inn í reglugerðir eða reglugerðarviðauka einhverjar heimildir sem Alþingi hefur ekki þegar veitt.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það eru ekki bara lögin sem eru lögskýringargögn. Þegar lögin eru túlkuð geta skipt máli nefndarálit, greinargerð með frumvarpi, ræða formanns og ræða ráðherrans eða þess sem flytur hið upprunalega frumvarp. Aðalatriðið er þó að hafa lögin svo skýr að þau séu ekki opin fyrir túlkun sem eykur óvissuna þegar talað er um þýðingarmikil mál. Þess vegna skiptir máli að hér er verið að taka af tvímæli um þessa heimild sem ef til vill hefði mátt lesa út úr textanum óbreyttum. Það liggur þá fyrir að með þessari breytingartillögu viðskiptanefndarinnar er þessi heimild til að taka inn í viðaukann einskorðuð við lög sem Alþingi hefur þegar samþykkt.