137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

15. mál
[17:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér eru enn ein lögin sem við afgreiðum í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins. Þetta fer þannig fram að samþykktar eru tilskipanir á Evrópuþinginu og sökum þess að við eigum aðild að Evrópska efnahagssvæðinu ber okkur að samþykkja þær ásamt öllum öðrum þeim sem eiga aðild að Evrópska efnahagssvæðinu en það eru Evrópusambandsríkin 27 og síðan þrjú EFTA-ríki af fjórum, þ.e. Ísland, Noregur og Liechtenstein. Sviss er hins vegar með tvíhliða samning við Evrópusambandið og tók þann kostinn að vera ekki aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Það var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma í Sviss. Þótt ég sé ekki sérfræðingur um þá atkvæðagreiðslu tel ég að helsta ástæðan fyrir því að Sviss felldi tillögu um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu hafi verið að íbúar í Sviss töldu að þar færi of mikið af fullveldi ríkisins til yfirþjóðlegra stofnana og vildu frekar fara aðrar leiðir í Evrópusamstarfinu. Þeir völdu þá leið að fara í tvíhliða samning við Evrópusambandið. Nú geta menn deilt um það hvort slíkt stæði okkur Íslendingum til boða, þ.e. ef Ísland mundi ekki vilja vera áfram í Evrópska efnahagssvæðinu. Það væri að vísu erfitt fyrir Evrópusambandið að skera á öll þau tengsl því samkvæmt Alþjóðaviðskiptastofnuninni er þjóðum ekki heimilt að segja upp viðskiptasamningum á milli ríkja nema bæta mönnum það upp með einhverju móti. Þetta hefur t.d. komið fram í því að þegar Pólverjar gengu í Evrópusambandið á sínum tíma áttum við Íslendingar samning við þá um innflutning á síld, við fluttum út síld til Póllands og ef ég man rétt, virðulegi forseti, var það tollfrjálst. En sökum þess að Pólland var í Alþjóðaviðskiptastofnuninni ásamt okkur Íslendingum þurfti Evrópusambandið að bæta okkur það upp við inngöngu Póllands. Við það að Pólland gekk í Evrópusambandið tóku við tollmúrar þess ríkjabandalags sem voru hærri en það tollfrelsi sem við bjuggum við í samskiptum okkar við Pólland og við fengum þá lækkun á öðrum tollum í Evrópusambandinu. Ég man ekki nákvæmlega hverjir þeir voru, virðulegi forseti, en þeir voru á sviði sjávarútvegsmála.

Hvað sem því líður, virðulegi forseti, þó að svona mál líti sakleysislega út ef þannig má að orði komast, þá leynast hættur í litlu málunum og við vorum einmitt með annað slíkt áðan.

Það er þannig og er í rauninni mjög sérstakt að skoða dagskrá þingsins, fimmtudaginn 23. júlí 2009, á sumarþingi þegar mikið liggur við og svo sannarlega liggur mikið við í sumar. Við erum með þetta stóra hagsmunamál sem er Icesave. Menn fóru að vísu í þá vegferð, sem var óskaplega óskynsamleg og við erum að sjá upp á hvern einasta dag hversu var óskynsamleg hún er, að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ætli það verði ekki lengi í minnum haft sökum þess hversu langt var gengið í að snúa upp á hendur á þingmönnum Vinstri grænna og mátti heyra harmkvæli um alla ganga þegar verið var að pína þá inn á þá leið og allt var það gert væntanlega í nafni samstöðu ríkisstjórnarinnar. En menn fóru þá leið að gera það á sama tíma og við erum í þessari miklu deilu við Evrópusambandsríkin út af Icesave. Það eitt og sér mun veikja samningsstöðu okkar. Það kom strax í ljós.

Það skiptir engu máli, virðulegi forseti, þó að hæstv. forsætisráðherra segist hafa útskýrt það fyrir Evrópulöndunum að engin tengsl séu á milli Icesave og Evrópusambandsins, þá erum við búin, virðulegi forseti, að gefa Evrópusambandslöndunum hverju og einu sérstakt vald í hendurnar að stöðva aðildarviðræður og inngöngu Íslands í ESB. Við erum búin að gefa þeim það vald bara með því að sækja um. Og nú strax beittu Hollendingarnir sér í þessu máli, þeir tengdu þessi mál saman og þeim er í lófa lagið, Hollandi, Bretlandi, Spáni, hvaða ríki sem er, í lófa lagið að koma í veg fyrir að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu, hverju og einu ríki. Ef einhver velkist í vafa um það hvort einhverju slíku valdi yrði beitt þá er alveg augljóst að menn í viðkomandi þjóðríkjum víla það ekki fyrir sér. Við þurfum ekki annað en líta á samninginn um Icesave til að sjá hvernig þau ríki sem áttu mest undir þar beittu sér. Ef einhver er í vafa um hvort þetta vald yrði notað þá kom hollenski utanríkisráðherrann og sýndi það hvernig menn beita sér í sinni utanríkispólitík og hafa gert strax á fyrstu dögum þess að þingið var búið að samþykkja að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Praktískt var því afskaplega óskynsamlegt að sækja um aðild að Evrópusambandinu um leið og við erum að takast á um Icesave við þessi ríki. Þetta eru stærstu deilur sem Íslendingar hafa átt í. Við erum að tala um að þær séu sambærilegar, sumir telja að það séu stærri hagsmunir að veði en voru í þorskastríðunum. Og það er ekki aðallega praktískt, óskynsamlegt, að gera þetta á sama tíma heldur er það hreint og klárt niðurlægjandi að sækja um aðild að Evrópusambandinu á sama tíma og Evrópusambandsríkin koma fram við okkur eins og raun ber vitni í Icesave-málinu.

Það má líka tala um Icesave og það tengist nákvæmlega málum eins og eru í gangi núna ef menn lesa þá dagskrá sem hér liggur fyrir. Þetta er Ríkisútvarpið, mál sem fjallar um gjalddaga á greiðslum, aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaða ábyrgð yfir landamæri, starfsmenn í hlutastörfum, tímabundin ráðning starfsmanna, breyting á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti, hlutafélög og einkahlutafélög, erfðabreyttar lífverur, eiturefni og hættuleg efni, meðhöndlun úrgangs, endurskoðun á undanþágu frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn, kosningar til sveitarstjórna. Þegar maður les þessa dagskrá gæti maður fengið á tilfinninguna að nú væri febrúar 2006 eða 2007 og lítið um að vera í þinginu eins og hægt væri að orða það, ekki væri mikið um að vera í þjóðfélaginu. En það er öðru nær og það er krafa okkar þingmanna til stjórnvalda, sérstaklega ríkisstjórnarinnar, að sinna því sem lofað var að sinna eins og bráðaaðgerðum í þágu heimila og atvinnulífs. Þess í stað erum við að nota tímann og óhætt að segja eyða tímanum í að ganga frá málum sem þessum.

Þessi mál, innleiðing tilskipana Evrópusambandsins, eru oftar en ekki stórhættuleg. Ástæðan fyrir því að dagskráin er eins og raun ber vitni, ekkert mál sem skiptir virkilega máli fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu, er sú að stjórnin veit ekki hvernig hún á að snúa sér í Icesave-málinu. Það er kaldhæðnislegt að við séum að ræða eina tilskipun Evrópusambandsins sem við erum að taka upp í íslensk lög því Icesave á akkúrat rætur að rekja til slíks máls. Þannig var, virðulegi forseti, að sökum þess að það er sameiginlegur fjármálamarkaður í Evrópu þá þótti mönnum nauðsynlegt að hafa sameiginlegt innstæðutryggingarkerfi sem átti að gera það að verkum að þeir sem áttu viðskipti við evrópska banka sama hvar þeir væru gætu verið nokkuð öruggir með innstæður sínar í viðkomandi fjármálastofnun. Þannig er þetta til komið að þáverandi viðskiptaráðherra talaði fyrir þessu máli á þinginu, virðulegi forseti, en að vísu voru nokkrir þingmenn sem allir eiga það sameiginlegt að vera held ég núna í forustu í ríkisstjórn, það var hæstv. forsætisráðherra, það var hæstv. heilbrigðisráðherra, gott ef ekki hæstv. fjármálaráðherra líka og þá voru allt saman óbreyttir þingmenn, sem vildu svo bæta um betur og hækka þá lágmarksfjárhæð sem um var getið í frumvarpinu upp í hið óendanlega. En hún er, eins og við vitum og er orðið allt of frægt, 20.882 evrur, ef ég man rétt.

Virðulegi forseti. Sem betur fer var þessi breytingartillaga ekki samþykkt en þarna var hins vegar um það að ræða að þessi tilskipun var meingölluð. Ef menn ætluðu, sem getur verið mikil skynsemi í, að hafa innstæðutryggingar þá hefðu menn þurft að láta þær ná yfir landamæri og hafa þá einn innstæðusjóð fyrir alla bankana á svæðið sökum þess að þetta er einn markaður. Það deilir enginn um það að við tókum allt regluverkið og allt saman frá Evrópusambandinu hvað þetta varðaði. Hins vegar var þetta ekki einn sjóður. Þetta var sjóður í hverju landi og sem gerði það að verkum að þegar fjármálakreppa varð og nokkur hluti af fjármálakerfinu hrundi, það voru ekki bara bankastofnanir á Íslandi, þær voru í fleiri löndum, þá lentum við Íslendingar með þetta gríðarlega stóra fjármálakerfi sem var orðið of stórt fyrir okkur en ekkert stórt í Evrópu, þá er ætlast til að við sitjum uppi með allan reikninginn, jafnvel reikninga sem urðu til í öðrum löndum.

Ég held að allir sanngjarnir menn séu sammála um að uppbygging innstæðukerfisins voru mikil mistök. Það hefur komið fram að Evrópusambandið ákvað að endurskoða það en það dugar okkur lítt af því að við sitjum uppi með skellinn. Að vísu sá ég prófessor í Háskóla Íslands, sem maður hafði um tíma á tilfinningunni að væri nær eini álitsgjafi Ríkisútvarpsins, sem talaði sérstaklega um að þetta innstæðutryggingarkerfi væri alveg sérstaklega snjallt. Virðulegi forseti, ég veit ekki fyrir hvað það er svona snjallt. T.d. er það ekki snjallt fyrir Íslendinga að hafa þurft að taka upp þetta kerfi. Ég veit að þegar þingmenn samþykktu þetta á sínum tíma í þingsal gerði sér enginn grein fyrir því hvaða afleiðingar það kynni að hafa en það er nákvæmlega það sem er í gangi kannski almennt, að þegar við erum að innleiða tilskipanir frá Evrópusambandinu þá hafa menn ekki hugsað málið í stærra samhengi og ekki verið nógu mikið á varðbergi. Ég vonast til að ekki sé um slíkt að ræða hér því eins og segir í nefndarálitinu sem allir nefndarmenn skrifuðu undir, með leyfi forseta:

„Frumvarpið felur í sér innleiðingu EES-reglna um að einfalda ákvæði um samruna og skiptingu hlutafélaga og einkahlutafélaga með því að fella niður kröfu um framlagningu skýrslu óháðs sérfræðings ef allir hluthafar eru því samþykkir. Um er að ræða innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/63/EB um breytingu á tveimur tilskipunum ráðsins, þ.e. 78/855/EB og 82/891/EB. Tilskipunin tekur til hlutafélaga en gert er ráð fyrir samsvarandi breytingum til einföldunar í lögum um einkahlutafélög enda ákvæði um samruna og skiptingu svipuð í lögunum.

Í frumvarpinu eins og það kemur fram nú hefur verið tekið tillit til breytingartillögu sem gerð var við fyrra frumvarpið á 136. löggjafarþingi. Hún lýtur að því að þrátt fyrir samþykki allra hluthafa um að falla frá gerð samrunaskýrslu skuli engu síður lögð fram yfirlýsing frá endurskoðanda um að hve miklu leyti samruninn kunni að rýra möguleika lánardrottna á fullnustu í einstökum félögum.

Nefndin leggur til þá efnisbreytingu á frumvarpinu að í stað þess að endurskoðandi veiti yfirlýsingu um það að hve miklu leyti samruni kunni að rýra möguleika lánardrottna á fullnustu í hinum einstökum félögum, sbr. 2. málsl. 1. gr. frumvarpsins, þá muni óháðir, sérfróðir matsmenn gefa þá yfirlýsingu. Ekki þykir ástæða til að einskorða slíka yfirlýsingu við það að endurskoðendur gefi hana. Í 1. mgr. 7. gr. laga um hlutafélög eru matsmenn skilgreindir sem löggiltir endurskoðendur, lögmenn eða aðrir sérfróðir dómkvaddir menn. Þessi breyting leiðir af sér nokkrar tæknilegar breytingar á I. kafla frumvarpsins hvað varðar hugtakanotkun, tilvísanir í önnur ákvæði o.fl.“

Ég tel að nefndin hafi farið vel yfir þetta og hún leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum eins og ég rakti og las úr nefndarálitinu. Það hefur verið fróðlegt að sitja núna í viðskiptanefnd og hlusta á sérfræðinga viðskiptaráðuneytisins ræða þessi mál og önnur. Það er þannig og það er nokkuð sem hefur ekki fengið það vægi í umræðum í þingi sem ætti að vera, og þá er ég að vísa í tilskipanirnar, að hægt er að hafa áhrif á þær að því gefnu að menn komi, virðulegi forseti, að þeim nógu snemma. Þá vísa ég til þess að það er vitað að þegar farið er af stað í gerð tilskipana og aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins fá tilkynningar um það hvaða mál eru í gangi í hverjum málaflokki, að því fyrr sem menn geta komið athugasemdum að — og í samningum Evrópska efnahagssvæðisins er gert ráð fyrir því að lönd fyrir utan Evrópusambandið geti komið slíkum athugasemdum eða komið sínum athugasemdum áleiðis snemma í ferlinu — að það er besta leiðin til að hafa áhrif á það þannig að menn sitja ekki uppi með tilskipun sem menn geta lítið breytt eða lítið átt við sem geta skaðað verulega hagsmuni þjóðarinnar. Það kallar á að framkvæmdarvaldið sé vel vakandi til að fylgjast með þessum málum og í mörgum málaflokkum er það gert.

Það kom mér nokkuð á óvart, virðulegur forseti, þegar ég spurðist sérstaklega fyrir um þetta vinnulag hjá viðskiptaráðuneytinu kom í ljós að sökum þess hve lítið og fámennt það hefur verið þrátt fyrir að fjármálakerfið var orðið svona gríðarlega stórt þá voru menn ekki að fylgjast með þessu eða koma að gerð tilskipana á fyrstu stigum máls eins og svo nauðsynlegt hefði verið fyrir land eins og okkar. Á undanförnum árum hafa hagsmunir Íslendinga í rauninni verið fólgnir að stórum, jafnvel stærstum, hluta í því hvernig fjármálaumhverfið liti út því það var orðinn svo stór hluti af efnahagskerfinu eins og við öll þekkjum. Þess vegna hafði það þessi alvarlegu áhrif þegar hrunið varð á fjármálamörkuðum og kom það mun verr niður á okkur en öðrum ríkjum.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að við rækjum þessa hluti og skoðum þá í stærra samhengi. Það er mikil ábyrgð lögð á nefndir þingsins að fara vel yfir frumvörp og sérstaklega þegar kemur að tilskipunum frá Evrópusambandinu. Ég vona að við í viðskiptanefnd höfum gert það í þessu tilfelli og hér séum við með frumvarp sem, þegar það verður að lögum, muni ekki valda neinum skaða hér á landi eins og sumar tilskipanir Evrópusambandsins hafa því miður gert.