137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og nokkrum breytingartillögum við stjórnarfrumvarp um kjararáð, á þskj. 235. Málið gerir í meginatriðum ráð fyrir því að til kjararáðs verði fluttar ákvarðanir um laun forstöðumanna ýmissa ríkisstofnana og hlutafélaga í eigu ríkisins og að það sjónarmið eigi að ríkja við ákvörðun um laun þeirra að þau séu ekki hærri heldur en sem nemur launum forsætisráðherra, út af þeirri hugsun að forsætisráðherra sé sá stjórnandi hjá íslenska ríkinu sem mestar starfsskyldur ber og ábyrgð og ekki sé eðlilegt, nema í algerum undantekningartilfellum, að aðrir stjórnendur hjá ríkinu hafi hærri laun en forsætisráðherra.

Þær breytingar sem lagðar eru til varða í fyrsta lagi að betur er afmarkað til hvaða félaga málið nær. Það nær ekki til dótturfélaga, dótturfélaga hlutafélaga í eigu ríkisins. Til útskýringar á því þá nær frumvarpið til Landsvirkjunar og framkvæmdastjóra þess. Það nær sömuleiðis til dótturfélags Landsvirkjunar, Landsvirkjunar Invest hf. og stjórnanda þess en það er afmarkað að lengra niður ættartréð, ef svo má kalla það hjá fyrirtækjum, nái áhrif frumvarpsins ekki. Sömuleiðis kemur fram að málið eigi ekki við um félög sem fjármálastofnanir í meirihlutaeigu ríkisins kunni að eignast, til að mynda við tímabundna yfirtöku sem gerð er til lúkningar skulda við ríkisbankana, við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í mörgum skuldsettum atvinnufyrirtækjum.

Þá er fært til betri vegar það sem lýtur að ákvörðun um launakjör í Seðlabankanum því ekki er eðlilegt að kjararáð úrskurði um biðlaun og önnur réttindi. Því er hagað með öðrum hætti og kosið að notast við biðlaun framkvæmdastjóra í stað forstöðumanns.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði, að lokinni þessari umræðu, samþykkt með þessum breytingum sem nánar koma fram á þskj. 235.