137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[17:40]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál virðist því miður hafa öll einkenni þess að menn séu að slá pólitískar keilur, að þeir séu að ná sér í vinsældastig í staðinn fyrir að taka í alvöru á og gæta meira samræmis milli launa hjá hinu opinbera. Þekki ég t.d. til í heilbrigðisgeiranum, sem er 25% af útgjöldum ríkisins. Þetta mun koma við einn starfsmann í allri heilbrigðisþjónustunni. Það eina sem vantar er kennitala viðkomandi heilbrigðisstarfsmanns. Sá starfsmaður er forstjóri Landspítalans, kona. Ég veit ekki hvort það hefur áhrif, að menn gátu þá tekið sig til. Sá aðili starfaði við sambærileg störf í Noregi, mér sýnist að eftir þessa breytingu séu laun viðkomandi starfsmanns einn þriðji af því sem þau voru þegar viðkomandi réð sig, ef við tölum um þetta í norskum krónum. Raunar er hagstæðara fyrir viðkomandi einstakling að fara frekar að vinna í öðrum stjórnunarstörfum inni á spítalanum, sem hjúkrunarfræðingur eða hugsanlega sem skurðhjúkrunarfræðingur, en að starfa sem forstjóri spítalans. Ætli það verði ekki um 160 manns sem verða launahærri en forstjóri spítalans þegar þessi breyting nær fram að ganga. Þetta er bara eitt dæmi, virðulegi forseti.

Mér finnst nauðsynlegt að skoða alla þætti í opinbera kerfinu, launaþætti og aðra þætti. Þetta mál ber þess merki að menn séu frekar að reyna að slá pólitískar keilur en taka á því með skynsemi. Ég spyr hv. þingmann, því hann er sanngjarn maður, hvort það sé ekki nær að skoða þessi mál betur þannig að við náum þeim markmiðum sem menn ætla en völdum ekki skaða í því kerfi sem við erum með núna.