137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[17:45]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri ekki annað en hv. þingmaður sé sammála mér um að það væri skynsamlegt að líta á þetta í stærra samhengi. Það er vinna sem nauðsynlega þarf að fara fram. Ég heyri að hv. þingmaður er algerlega sammála mér í því að eftir þessa breytingu sitjum við uppi með mjög sérkennilega stöðu á ýmsum stöðum. Þá er ég sérstaklega að vísa í heilbrigðiskerfið. Ég ítreka að um 160 manns verða þá með hærri laun en forstjórinn og var þó slatti með hærri laun en forstjóri Landspítalans. Ég tek það dæmi af því að ég þekki það vel og ég tek líka fram að ekki eru nein hlunnindi hjá forstjóranum, bílahlunnindi eða neitt slíkt eins og hjá mörgum öðrum.

Hv. þingmaður sagði réttilega: Hið táknræna skiptir líka máli. Eru það skilaboðin sem við viljum gefa, að þegar við köllum á karlmann frá Noregi til hjálpar, seðlabankastjóra — ætli hann sé ekki með um 2 millj. á mánuði með öllu — ég veit ekki til að menn hafi gert neitt til að setja þann einstakling niður í laun forsætisráðherra. En síðan kemur að umönnunarstéttunum, þessum erfiðu stjórnarstörfum sem þar eru, þá keyrum við einstakling sem kom frá Noregi niður í 935 þúsund (Gripið fram í: Kona.) sem er kona. Ég spyr hv. þingmann af því að ég veit að hv. þingmaður er sanngjarn maður: Eru þetta skilaboðin sem við viljum gefa? Er ekki svolítið táknrænt að frá sama vinalandi okkar kemur annars vegar karl sem er með um 2 millj. í laun á mánuði þegar allt er tekið og hins vegar fáum við góðan feng frá Noregi í væntanlega erfiðustu stjórnunarstöðuna í opinbera geiranum og þar skulum við taka af laununum — hjá konunni.