137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í fyrra svari mínu skil ég vel þær hugleiðingar sem hv. þingmaður hefur haft uppi en ég vek líka athygli á því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ekki sé mismunað á milli þess hvort um er að ræða fjármálageirann eða umönnunarstéttirnar. Nokkur umfjöllun var í nefndinni um hvort slík hámörk á stjórnendur í stofnunum í fjármálageiranum, sem augljóslega munu falla undir frumvarpið, yrðu til þess að draga úr möguleikum okkar á því að sækja fólk á alþjóðlegan markað og höfðu ýmsir af því nokkrar áhyggjur. Engu að síður er þannig um málið búið að þar gilda sömu reglur í heilbrigðiskerfinu og hjá hlutafélögum ríkisins almennt.

Það orkar auðvitað allt tvímælis sem gert er en einhvers staðar verðum við að byrja. Ég held að það hafi beinlínis verið hróplegt að fylgjast með launaþróun sums staðar hjá hinu opinbera og forstöðumönnum og ég tel að það sé ekki hægt að líta algerlega til launa undirmanna stjórnenda. Það er nú einu sinni þannig að í sumum fyrirtækjum og stofnunum eru að störfum sérfræðingar sem eru samkeppnishæfir á alþjóðlegum markaði og eðli starfanna vegna þarf að greiða þeim mjög há laun. Það þýðir ekki þar með að stjórnandi viðkomandi stofnunar eigi skilyrðislaust að vera á hærri launum en viðkomandi sérfræðingar en auðvitað þurfum við að launa fólki okkar vel. Ég vek athygli á því að laun hæstv. forsætisráðherra eru auðvitað umtalsverð og margfalt hærri en fjöldi fólks hér á landi þarf að draga fram lífið af á hverjum degi.