137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:18]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir hans mál. Það hefur komið oft fram í ræðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þar á meðal hv. þm. Guðlaugs Þórs, að þetta mál sé mjög til vinsælda fallið og flutt til þess að slá pólitískar keilur o.s.frv. Mér leikur þess vegna hugur á að hv. þingmaður fari með okkur í gegnum það hvers vegna það sé hans mat að þetta mál, sem þykir í öðru orðinu svo lítið umfangs og að ýmsu leyti nánast ómerkilegt vegna þess hvað það sparar litla peninga — hvers vegna hv. þingmaður sé svona sannfærður um að það njóti almennra vinsælda og almenns stuðnings úti í samfélaginu. Hvort það séu tilteknar ástæður fyrir almenning til þess að hafa jákvæða afstöðu til málsins og finnast rétt að flytja það þó að á því kunni að vera ákveðnir gallar eins og hv. þingmaður hefur leitast við að halda til haga.