137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Þetta hljómar allt saman ágætlega. Ég held að það sé sannarlega þannig og það sé líka ýmislegt óhóf í ríkisrekstrinum, m.a. í launum einstakra ríkisforstjóra, sem hafi kallað fram ákveðnar kröfur hjá almenningi um að á því verði tekið í framhaldi af hruninu.

Ég vil hins vegar vegna orða hv. þingmanns taka fram að ég mun taka málið inn í nefnd á milli 2. og 3. umr., bæði vegna athugasemda sem hér komu fram frá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, vegna fyrirvara frá öðrum einstökum þingmönnum og vegna ábendinga frá hv. þingmanni, og taka á því einn aukahring áður en það kemur hér inn til 3. umr. Ég get út af fyrir sig deilt þeirri skoðun með hv. þingmanni að forstjóri Ríkisspítalanna fæst náttúrlega við eitthvert alerfiðasta stjórnunarstarf sem hægt er að fást við í íslensku samfélagi.