137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[20:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við sem erum áhugamenn um það hvernig ríkisstjórninni gengur að framfylgja málum sínum fylgjumst dálítið með því þegar ríkisstjórnin tilkynnir með reglubundnum hætti um afrek sín og hvernig mönnum miðar þar á bæ við að koma áfram málum sem sett voru inn í svokallaða 100 daga áætlun. Í nýjustu útskrift af afrekaskrá ríkisstjórnarinnar í þeim efnum er sagt frá í lið nr. 16 að þeim lið hafi verið hrundið í framkvæmd með þeim hætti að gripið hafi verið til viðeigandi aðgerða til að lækka hæstu laun hjá ríkinu og félögum á þess vegum með það að leiðarljósi að enginn verði með hærri laun en forsætisráðherra. Þetta voru upphaflegu markmiðin sem sett voru í 100 daga áætlunina. Þegar farið er yfir þau þingmál sem gætu hugsanlega átt við þennan efnislið blasir við að hér er greinilega verið að vísa til þess frumvarps sem er nú til umfjöllunar, þ.e. frumvarps til laga um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum.

Þetta frumvarp svarar alls ekki til þeirrar stórkarlalegu lýsingar sem getur að líta í 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar og enn síður er hægt að segja að í afrekaskrá ríkisstjórnarinnar sé farið satt og rétt með því að þetta frumvarp sem við ræðum hér tekur ekki nema til hluta þeirra starfsmanna sem hafa hærri laun en forsætisráðherrann í landinu. Engu að síður hljótum við að ræða þessa hugmynd eins og hún var sett fram og í ljósi þess að ríkisstjórnin er greinilega ekki fallin frá þeim áformum sínum að glíma við að lækka hæstu laun hjá ríkinu til samræmis við þau sem forsætisráðherrann hefur.

Þetta frumvarp gengur fyrst og fremst út á að útvíkka hlutverk kjararáðs og láta það úrskurða um fleiri aðila en það hefur gert. Síðan er því sett fyrir í 2. gr. frumvarpsins með þeim hætti að það skuli gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu annarra en forseta Íslands verði ekki hærri en laun forsætisráðherra. Þetta er kjarni málsins. Annars vegar útvíkkað hlutverk kjararáðs og hins vegar sá ásetningur, sú stefnumörkun, að þeir tilgreindu aðilar sem þarna eru nefndir til sögunnar fái ekki hærri laun fyrir sína dagvinnu en hæstv. forsætisráðherra hefur.

Hér var rætt um hvort frumvarp af þessu taginu væri til vinsælda fallið eða ekki. Ég er sammála hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, og raunar fleirum sem hér hafa talað, um að auðvitað er þetta frumvarp líklegt til vinsælda. Það er að sönnu rétt sem hefur komið fram að þetta frumvarp hefur ekki mikil áhrif á heildarlaunasummu ríkisins. Mér telst svo til að hér geti verið um að ræða lækkun á heildarlaunakostnaði ríkisins um u.þ.b. 50 millj. kr. Auðvitað er þetta táknræn aðgerð og hún hefur skírskotun til þess ástands sem hér ríkir. Við höfum orðið fyrir gríðarlega miklu efnahagslegu áfalli sem ekki þarf að orðlengja um. Mjög margar starfsstéttir hafa orðið að sætta sig við lækkandi launakjör. Við sjáum að launaþróunin hefur almennt verið þannig í landinu að kaupmáttur hefur rýrnað og hann mun rýrna á þessu ári. Það er í raun og veru viðurkennt í stöðugleikasáttmálanum sem gerður var og tilkynntur fyrir ekki löngu síðan. Síðan hefur tíðkast á hinum almenna vinnumarkaði að til þess að reyna að afstýra atvinnuleysi hafa launþegar og vinnuveitendur komist að samkomulagi um að lækka launakjör önnur en samningsbundin laun til þess að draga úr launakostnaði.

Það er því ljóst að tillaga af þessu tagi sem kemur fram í frumvarpsformi á sér þessa forsögu og hefur þennan jarðveg og í sjálfu sér er ekkert við það að athuga að reynt sé að lækka laun þeirra sem hærri launin hafa í þjóðfélaginu við þær aðstæður sem við búum við núna. Hins vegar er ástæða til að vekja athygli á því, eins og ég nefndi áðan, að þetta er væntanlega hluti af áformum ríkisstjórnarinnar. Ég hef ekki skilið það svo að ríkisstjórnin sé fallin frá því sem kemur fram í aðgerðaáætlun hennar og er síðan áréttað í þeim lista yfir árangur sem ríkisstjórnin birtir með reglubundnum hætti, þ.e. að gripið skuli til aðgerða sem tryggi að enginn verði með hærri laun en forsætisráðherra. Ekki er aðeins um að ræða þessa hópa sem hér eru til umfjöllunar heldur aðra hópa jafnframt og við hljótum að líta svo á að þetta sé einungis áfangi á þeirri leið.

Fyrir ekki löngu síðan kom fram á Alþingi svar hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Skúla Helgasonar um hálaunastörf á vegum ríkisins. Ég hef saknað þess dálítið að þetta svar hafi fengið þá athygli sem mér finnst það sannarlega verðskulda vegna þess að það er í raun og veru mjög lýsandi fyrir þessa stöðu og sýnir okkur um hvaða hóp verið er að tala þegar rætt er um að lækka laun starfsmanna ríkisins niður í laun hæstv. forsætisráðherra. Í svari hæstv. fjármálaráðherra kemur fram að af þeim 20.762 starfsmönnum sem fengu greidd dagvinnulaun í mars 2009 uppfylltu 402 starfsmenn þau skilyrði að vera með hærri heildarlaun en forsætisráðherra. 402 starfsmenn. Þessi hópur er síðan sundurliðaður allnákvæmlega og þá kemur í ljós að þrír fjórðu, 75% þeirra sem hér er um að ræða, eru einstaklingar sem starfa innan vébanda Læknafélags Íslands. Þeir eru með öðrum orðum læknar. 301 af þessum 402, sem eru með laun hærri en hæstv. forsætisráðherra, eru læknar. 34 þeirra eru í Skurðlæknafélagi Íslands og 13 eru í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þegar við leggjum þessar tölur saman og skoðum hana sérstaklega blasir við að heilbrigðisstarfsmenn í þessum hópi eru 348, þ.e. lunginn af þessum 400 manna hópi sem hefur hærri laun en hæstv. forsætisráðherra.

Annar hópur er einnig tilgreindur þarna, þ.e. Félag prófessora við ríkisháskóla, en þeir eru tólf. Innan Kennarasambands Íslands eru tíu með hærri laun en hæstv. forsætisráðherra og innan Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga hjá ríkinu eru þeir sex. Síðan eru allmörg önnur stéttarfélög talin upp þar sem færri en fimm eru með hærri laun en hæstv. forsætisráðherra en ég ætla ekki að rekja þá tölu. Þetta er sem sagt viðfangsefnið sem enn er óleyst. Það er þó greinilega ásetningur hæstv. ríkisstjórnar að glíma við það og í raun og veru er þannig komin yfirlýsing, staðfesting ríkisstjórnarinnar sem ég vísaði til á því að unnið yrði að þessum málum.

Einnig er rakið í svari hæstv. fjármálaráðherra hvernig þessi laun skiptast, dagvinnulaun, yfirvinnulaun og önnur laun. Þá kemur í ljós þegar heildarlaunin eru skoðuð, sem eru yfir launum hæstv. forsætisráðherra eða yfir 935 þús. kr. á mánuði, að þetta eru laun sem að meðaltali eru tæplega 1.200 þús. kr. 54% af laununum eru dagvinnulaun, 11% yfirvinnulaun og 34,6% önnur laun. Niðurstaða útreiknings fjármálaráðherra og ráðuneytisins er að til að ná fyrrgreindu markmiði og færa laun þessa hóps, þessara 402 einstaklinga sem um er að ræða, þyrfti að lækka heildarlaun hópsins um fimmtung. Það yrði að framkvæma 20% almenna launalækkun yfir línuna til að ná launakjörum þessa hóps niður í þau sem hæstv. forsætisráðherra hefur.

Hins vegar er líka vakin athygli á því að þessi leið er ófær. Niðurstaða hæstv. fjármálaráðherra er sú að sé ekki hægt að hreyfa við dagvinnuhluta launanna með einhliða aðgerðum og þá skulum við hafa í huga að af þessari launasummu er rúmlega helmingurinn dagvinnulaun. Lækkunin þyrfti að koma á aðra launaútgjaldaflokka, þ.e. yfirvinnulaun og önnur laun. Niðurstaða hæstv. fjármálaráðherra er að ef menn ætla að reyna að ná þessum árangri, þessu markmiði ríkisstjórnarinnar frá því í vor, þyrfti að lækka aðra launaliði en dagvinnulaun um 44%. Þetta eru staðreyndir málsins, hinar tölulegu staðreyndir sem við okkur blasa og menn þurfa ekki að deila um þær nema menn vilji vefengja tölur hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef ekki lagt niður forsendurnar en gef mér að þetta séu réttar tölur og hef enga ástæðu til að draga þær í efa. Hæstv. fjármálaráðherra hefur auðvitað allar forsendur til að reikna þetta út eða láta reikna þetta út fyrir sig. Það sem mér fannst hins vegar athyglisverðast þegar ég las þetta svar á sínum tíma var mat hæstv. fjármálaráðherra á afleiðingum þess ef gripið yrði til þeirra viðeigandi aðgerða sem hæstv. ríkisstjórn boðaði til að lækka hæstu laun niður í laun hæstv. forsætisráðherra. Hverjar yrðu afleiðingarnar? Þær eru dregnar saman í knöppum embættismannastíl og ekki er skafið utan af hlutunum. Þar er dregin upp mynd sem hver meðalstjórnarandstæðingur sem dregur fram afleiðingar af gjörðum ríkisstjórnar gæti verið stoltur af. Ég ætla aðeins að tíunda þessi atriði sem hæstv. fjármálaráðherra gerir að umtalsefni í svari sínu.

Hann segir að ef farið yrði að ráðum ríkisstjórnarinnar og gripið til viðeigandi aðgerða til að lækka öll laun þannig að enginn væri hærra launaður en hæstv. forsætisráðherra mundi það í fyrsta lagi leiða til skertrar þjónustu. Það mundi leiða til breytinga á vinnufyrirkomulagi hjá þeim starfsstéttum sem um ræddi, þ.e. hjá læknum, hjúkrunarfræðingum, prófessorum, kennurum, viðskiptafræðingum o.s.frv. Það yrðu líka augljóslega færri staðar- og gæsluvaktir á sjúkrahúsum. Heilbrigðisstarfsmenn yrðu fyrst og fremst fyrir barðinu, ef ég má orða það svo, á þessari hugmynd. Það yrðu unnin færri gjaldskrárverk innan heilsugæslunnar og þetta mundi leiða til breytts fyrirkomulags og samdráttar í vaktavinnu jafnframt því að kennsla í framhaldsskólum og háskólum mundi minnka. Þetta eru afleiðingarnar.

Virðulegi forseti. Þegar maður les þessa svörtu skýrslu hæstv. fjármálaráðherra um afleiðingar þess að áformum ríkisstjórnarinnar verði fylgt eftir, sem raunar var sagt að búið væri að hrinda í framkvæmd sem er þó kannski ekki öll sagan, vil ég leyfa mér að efast um að hæstv. ríkisstjórn muni þrátt fyrir mikinn kjark og vilja ganga eins langt og hún hefur gefið fyrirheit um. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er auðvitað ákveðin niðurstaða og þrátt fyrir áform hæstv. ríkisstjórnar og að ég hafi sagt fyrr í ræðu minni að ég liti svo á að hún væri í miðju kafi ætla ég að leyfa mér að draga í efa að hæstv. ríkisstjórn muni halda áfram þessari vegferð sem leiðir til skertrar þjónustu, breyttrar vaktavinnu hjá þeim starfsstéttum sem ég nefndi, minni kennslu í framhaldsskólum og háskólum o.s.frv.

Ég vildi draga þetta fram vegna þess að þótt menn fái góðar hugmyndir sem við fyrstu sýn virðast réttlátar og eðlilegar í því umhverfi sem þær eru settar fram eru auðvitað ákveðnir vankantar eða erfiðleikar til staðar þegar menn standa frammi fyrir raunveruleikanum. Ég ætla að öðru leyti ekki að fjölyrða sérstaklega um þetta frumvarp til laga sem hér liggur fyrir, það hefur verið farið allítarlega yfir það mál. Ég vildi hins vegar aðallega setja þetta mál í það samhengi sem því ber vegna þess að þetta frumvarp er svar við fyrirheitum ríkisstjórnarinnar um að jafna kjörin í þjóðfélaginu, líka innan vébanda ríkisins. Þá er nærtækast, vilji menn gera það, að horfa til þeirra launa sem hæst eru og viðmiðið var laun hæstv. forsætisráðherra.

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að ætlun formanns nefndarinnar er að taka þetta mál inn til nefndarinnar að nýju á milli 2. og 3. umr. Ég geri ekki ráð fyrir því að þau mál sem ég gerði síðast að umræðuefni, þ.e. áhrifin af því ef menn fylgja eftir hugmyndafræðinni gagnvart öllum þeim hópum sem hafa hærri laun en hæstv. forsætisráðherra, verði verkefni nefndarinnar að velta því fyrir sér, a.m.k. að sinni, heldur takist hún frekar á við þetta frumvarp og ramma þess sem fyrir liggur. Óneitanlega hefur þó komið fram að ýmsir skavankar koma upp þegar svona mál er til umfjöllunar og þess vegna er eðlilegt og sjálfsagt að málið komi til frekari skoðunar í nefnd á milli umræðna.