137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[21:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að fara í langa tölu um upphaf og feril þessa máls. Þeir ræðumenn sem hér hafa staðið hafa farið aðeins yfir það en þó er rétt að minnast á að þessar breytingar voru fyrst lagðar fram á 135. þingi, í apríl 2008, næst á 136. þingi, í desember 2008, og loks á yfirstandandi þingi. Því var útbýtt fyrir hálfum mánuði en er fyrst núna komið til umræðu, á miðju sumri, og gat ég ekki betur heyrt á hæstv. ráðherra en að nú lægi skyndilega verulega mikið á að klára málið.

Frú forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að við áttum okkur aðeins á hvað við erum að fara út í og hvað við erum að ræða um. Af hverju er þetta matvælafrumvarp hérna? Ríkisstjórnin samþykkti að hefja viðræður um endurskoðun á undanþágum Íslands í EES-samningnum sumarið 2007. ESB setti skilyrði þess efnis að sett yrði heildstæð matvælalöggjöf og m.a. að undanþágur varðandi búfjárafurðir yrðu endurskoðaðar. Ríkisstjórnin heimilaði staðfestingu á þessum sex ákvörðunum sameiginlegrar EES-nefndar haustið 2007 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Hvað þýðir þetta? Um hvað var verið að semja? Það þýðir að innflutningur búfjárafurða var leyfður, það var krafa frá ESB. Áfram var leyft að fóðra búfé með fiskimjöli, það var krafa frá Íslandi. Ísland gat bannað innflutning á kjötmjöli. Reglur um líflömb á bæjum þar sem greinst hafði riða var krafa frá ESB en reglur ESB um dýravelferð voru ekki teknar upp, að kröfu frá Íslandi, og er kannski svolítið sérstakt. Bann við innflutningi lifandi dýra þar sem enn eru rök fyrir því er krafa frá Íslandi og ég ætla að vona að sú krafa og þau rök haldi sem lengst. Að lokum var krafa frá Íslandi þess efnis að tolla mætti innflutning búfjárafurða.

Þetta þýðir að Ísland mun framfylgja reglum ESB varðandi búfjárafurðir eins og gert er með fiskafurðir. Heildarendurskoðun á matvælalöggjöf og ráðherraheimild til innleiðingar reglugerða er sett inn án þess að fella nokkuð burt. Nýjar reglur um aukaafurðir eða úrgang frá dýrum eru settar inn og það þyrftum við að skoða miklu nánar, þ.e. hvað það þýðir ef við ætlum að taka upp alls kyns Evróputilskipanir í reglugerð án þess að við fjöllum um það í þinginu. Einnig eru settar nýjar reglur um fóður og fóðureftirlit.

Áhrif almennt eru þess efnis að aukinn kostnaður vegna opinbers eftirlits er viðurkenndur af öllum aðilum. Allir bændur verða eftirlitsskyldir, í það minnsta í gegnum fóðureftirlit. Mismunandi er hvort aðilar þurfa starfsleyfi eða nóg er að tilkynna rekstur, t.d. er nóg fyrir sauðfjárbændur og hrossaræktendur að tilkynna reksturinn til Matvælastofnunar.

Ísland tekur fullan þátt í starfi Matvælaöryggisstofnunar Evrópu, EFSA. Ísland getur ekki stöðvað innflutning nema með ríkum sönnunum og rökstuðningi. Ég vonast til að hæstv. ráðherra muni standa við orðin stóru áðan og geti sýnt fram á það um lengri tíma. Opinbert eftirlit skal byggt á hættumati. Síðar á að semja um viðbótartryggingar, m.a. vegna salmonellusmits í innfluttum dýraafurðum, og fara verður í kostnaðarsamar aðgerðir varðandi annað kjöt en kjúklinga til að geta farið fram á viðbótartryggingar. Það má spyrja sig með þessar viðbótartryggingar: Hvað gerist í millitíðinni ef við getum ekki sannað að við eigum rétt á slíkum viðbótartryggingum? Erum við þá búin að taka við því allélegasta og mest heilsuspillandi kjöti sem er til á markaði í Evrópu?

Almennt, frú forseti, um frumvarpið. Þar sem það hefur verið lagt fram í tvígang áður er hægt að fara yfir fjölmargar umsagnir, svo sem umsagnir sveitarfélaga, t.d. Reykjavíkurborgar eða Sambands íslenskra sveitarfélaga og þó nokkurra annarra sveitarfélaga, landshlutasamtaka og heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna, auk ýmissa hagsmunasamtaka bænda, verslunar og þjónustu og annarra fagaðila. Ekki er að sjá að tekið hafi verið tillit til margra þessara umsagna þó að ýmislegt hafi breyst á milli framsagna í öll skiptin og að fjallað hafi verið um þetta mál á þremur þingum á tveimur árum.

Í þessu sambandi langar mig að styðjast að nokkru leyti við umsagnir sveitarfélaganna og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna þar sem ekkert tillit virðist hafa verið tekið til þeirra. Frumvarpið byggist á Evrópusambandslöggjöf og í ljósi þess að því er sérstaklega ætlað að skýra hugtök, meginreglur og málsmeðferð finnst mér nauðsynlegt að benda á og gera alvarlega athugasemd við að samkvæmt frumvarpinu á einnig að breyta fyrirkomulagi opinbers eftirlits og flytja verkefni í stórum stíl frá sveitarfélögum til ríkisins. Það eru laumufarþegar í þessum tilskipunum, þetta er ekki sá eini.

Í aðildarlöndum Evrópusambandsins er opinbert eftirlit með ýmsum hætti enda kveður reglugerðin, sem matvælahluti frumvarpsins byggist á, einungis á um að aðildarlöndin skuli halda úti kerfi opinbers eftirlits og annarri starfsemi eftir atvikum, þar með talið upplýsingagjöf til almennings um öryggi og áhættu í tengslum við matvæli og fóður, eftirliti með öryggi matvæla og fóðurs og annarri vöktunarstarfsemi sem tekur til framleiðslu, vinnslu og dreifingar á öllum stigum. Rök fyrir tilflutningi verkefna til ríkis frá sveitarfélögum eru mjög veik ef horft er til þess að verkefnaflutningurinn kemur til með að auka skörun, í það minnsta ekki minnka hana en kannski færa á gráu svæðin, auka óhagræði og kostnað eftirlitsþega og eftirlitsaðila.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur enn fremur fram að kostnaður við opinbert eftirlit muni aukast við gildistöku frumvarpsins. Matvælastofnun hefur fengið yfirumsjónarhlutverk sem áður var á hendi Matvæla- og umhverfisstofnunar sem nú hefur verið lögð niður. Með þessu eru tvær ríkisstofnanir í stað einnar með umsjónar- og samræmingarhlutverk með verkefnum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, þ.e. Umhverfisstofnun með hollustuháttum og mengunareftirliti og nú Matvælastofnun með það sem snýr að matvælafyrirtækjunum.

Það væri nauðsynlegt að í kjölfarið á þessu yrði lögð fram samræmd matvælalöggjöf og það yrði ekki bara löggjöfin sem hæstv. ríkisstjórn athugaði, heldur jafnframt að koma skýrri stefnu fram um samskipti þessara opinberu aðila við aðra stjórnsýsluaðila.

Benda má á þann stóra ágalla, sem margsinnis hefur verið bent á af sveitarfélögunum, að þrátt fyrir að þetta sé lagt fram í þriðja sinn á tveimur árum og þremur þingum, skuli ekki skuli hafa verið lagt mat á þann kostnaðarauka sem sveitarfélögin verða fyrir. Má þá vísa bæði til umsagnar SASS, þ.e. Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem lögðust gegn frumvarpinu þar sem ekki hefði verið metinn kostnaður sveitarfélaganna af breytingum sem það hefði í för með sér og að breytingarnar leiddu jafnframt til aukinnar skörunar eftirlits Matvælastofnunar og Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga sem mundu hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir fyrirtækin sem í hlut ættu og hið opinbera eftirlit.

Þá má líka minnast á umsögn Reykjavíkurborgar sem var á sömu nótum, að kaflinn um gjaldskrá og innheimtu gjalda væri bæði óljós og óskýr og ekki alveg ljóst hvernig eigi að fara með þann kostnað. Þar er jafnframt nefnt að í athugasemdum með frumvarpinu sé staðhæft að breytingarnar hafi ekki í för með sér aukakostnað fyrir Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga þar sem eftirlitsþegar greiði raunkostnað við eftirlitið. Þetta sé því miður alls ekki rétt þar sem reynslan sýni að alls ekki sé unnt að reikningsfæra alla vinnu, sérstaklega ekki vegna þess aukna markaðseftirlits sem talað sé um í frumvarpinu.

Að lokum, í þessum kafla, langar mig að vekja athygli á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem ég get ekki séð að tekið hafi verið nokkurt tillit til hennar en þar segir, með leyfi forseta: „Sambandið vekur athygli á því að frumvarpið hefur ekki verið kostnaðarmetið gagnvart sveitarfélögunum. Meginbreytingin á verkefnum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga felst í því að innflutt matvæli munu ekki lengur sæta innflutningseftirliti af hálfu Matvælastofnunar. Þess í stað verður tekið upp markaðseftirlit sem er að áliti sambandsins mun flóknari og kostnaðarsamari framkvæmd og mun leiða til hækkunar matvælaverðs. Hvorki hefur farið fram kostnaðarmat á markaðseftirliti né verið ákveðið hvernig sveitarfélögunum verður bættur sá kostnaðarauki sem af slíku eftirliti hlýst. Sama máli gegnir um færslu verkefna frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga til Matvælastofnunar. Sambandið leggur ríka áherslu á að hér er um verkefnaflutning á milli ríkis og sveitarfélaga að ræða sem ber að hafa samráð við Sambandið sbr. 100. gr. sveitarstjórnarlaga …“

Frú forseti. Hér hef ég rakið almennar áhyggjur og athugasemdir ýmissa hagsmunaaðila. Þó er ónefnd ein stærsta og merkilegasta staðreyndin, sem staðfest er í mörgum athugasemdum, að við á Íslandi búum við eitt mesta matvælaöryggi í heimi og tíðni matarsýkinga á Íslandi er sú lægsta í heimi. Þetta kemur fram í umsögn sóttvarnalæknis og í umsögn sóttvarnalæknis og sóttvarnaráðs þar sem ítrekað er mikilvægi þess að innflutt matvæli lúti sama stranga eftirlitinu og innlend matvælaframleiðsla. Fulltrúi í sóttvarnaráði lét bóka að hann legðist gegn því að innflutningur á hráum sláturafurðum yrði heimilaður af lýðheilsuástæðum. Þar er jafnframt fjallað um góðan árangur í kjúklinga- og svínaeftirliti sem hafa skilað því að lýðheilsa fólks er betri en í öðrum löndum. Þetta er ákaflega mikilvægur þáttur.

Við erum, frú forseti, að setja okkur lægri standard með því að taka upp Evrópusambandstilskipunina, þessar breytingar, í matvælalöggjöfina heldur en við búum við í dag. Það er óskiljanlegt. Ýmis lönd, eins og Noregur og Nýja-Sjáland, og hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra nefndi önnur lönd, hafa farið aðrar leiðir. Þau hafa hreinlega bannað innflutning á hráum afurðum, og jafnvel dýrum, vegna þess að heilbrigðisástand er þannig í löndunum að slíkur innflutningur er talinn ógna því.

Varðandi þennan almenna hluta, áður en ég kem að einstökum greinum, langar mig að lokum að nefna annan laumufarþega sem hefur heldur ekki neina skírskotun í tilskipun Evrópusambandsins, það eru breytingar á lögum um dýralækna. Ýmsar þeirra eru til bóta en aðrar eru varasamar og má þar nefna 39. gr. Stjórn Dýralæknafélagsins hafði þungar áhyggjur af því að dýralæknar hverfi úr störfum í strjálbýlli héruðum og erfitt verði að manna stöður sökum þeirrar óvissu sem umrætt frumvarp hafi þegar skapað. Jafnframt benti stjórn Dýralæknafélagsins, með leyfi forseta, á að það væri „… afar mikilvægt að sem allra fyrst verði hafist handa við gerð reglugerðar þeirrar sem ætlað er það mikilvæga hlutverk að tryggja dreifðum byggðum þjónustu dýralækna. Reglugerðinni er ætlað að mæla fyrir um starfsaðstöðu, greiðslu staðaruppbótar og/eða ferðakostnaðar dýralæknis sem tekur að sér slíka þjónustu.“ Mig langar að taka undir áhyggjur stjórnar Dýralæknafélags Íslands.

Frú forseti. Ég sé að nokkuð hratt gengur á tíma minn. Ég hefði áhuga á því að taka fyrir einstakar greinar frumvarpsins og nefna þar einna helst að í fyrstu greinum frumvarpsins, til að mynda í 3. og 4. gr., er talað um breytingar og færslu á verkefnum. En það eru engar kröfur af hálfu Evrópusambandsins um tilflutning verkefna frá sveitarfélögum til ríkisins. Hér er bein þýðing á reglugerð sem er ætlast til að aðildarlöndin taki upp í sín lög. Þrátt fyrir að þetta hafi verið lagt fram í þrígang virðist þýðing á reglugerð vera tekin upp í staðinn fyrir að lögin séu sett á grundvelli þessarar reglugerðar. Langar mig að nefna eitt dæmi þar að lútandi, til að mynda er í 11. gr. laganna talað um að leitast skuli við að vernda hagsmuni neytenda og gefa þeim kost á upplýstu vali. Þannig skal leitast við að fyrirbyggja framleiðslu og markaðssetningu svikinna matvæla. Núna er þetta bannað í íslenskum lögum. Óskiljanlegt er að tekinn sé texti beint upp úr tilskipun þar sem aðildarríkið, Ísland í þessu tilviki, á að taka málið upp og semja sín eigin lög en ekki þýða lélega Evróputilskipun með lakari kröfum heldur en þekkist í landinu.

Frú forseti. Ég næ því miður ekki að fara yfir einstakar greinar en mun væntanlega gera það í nefndinni og tek undir orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um að við þurfum nokkurn tíma í nefndinni að fjalla um þetta. Það hefði verið betra að fá þetta mál inn fyrr í sumar úr því að það er búið að liggja útbýtt í hálfan mánuð.