137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[22:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefði verið betra þegar hv. þingmaður var ráðherra í ríkisstjórn, ef ég man rétt, alla vega studdi hann þá ríkisstjórn sem beitti sér fyrir því að falla frá þessum undanþágum, að hann hefði haldið þessum sjónarmiðum fram þar. Eftir því sem mig minnir, þegar EES-samningurinn var samþykktur og þessi undanþága veitt, var ekki sjálfgefið að hún félli niður heldur átti að endurskoða það ákvæði að ákveðnum árafjölda liðnum, að mig minnir 10 árum. Endurskoðunarákvæði þýðir að semja á um framhaldið en það var ekki haldið betur á málum en það. Ég tel þrátt fyrir allt að sú lagastoð, sem við getum sótt í rétt okkar til að halda hagsmunum okkar til verndar lífi og heilsu manna og dýra eins og kveðið er á um í 13. gr. samningsins, gefi okkur hald.

Ég vildi heldur heyra, frú forseti, að hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra sem flutti þetta mál öðruvísi fyrir tveimur árum síðan, hefði sagt: Við skulum standa að baki þessu, halda þessu til fullkominnar streitu og berjast á þessum vettvangi. Ég held að það sé það sem við gerum núna og er þess (Forseti hringir.) fullviss að nægilega styrk lagastoð og heimild sé til að við gerum það. Ég held reyndar að okkur beri skylda til þess gagnvart þeim verðmætum sem eru í húfi, sem eru líf og (Forseti hringir.) heilsa manna og dýra á Íslandi.