137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[22:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra talar eins og þetta mál dúkki upp fyrst núna. Árum saman móuðust íslensk stjórnvöld við, reyndu að berjast fyrir því að þurfa ekki að aflétta þessum fyrirvara varðandi matvælalöggjöfina. Ástæðan var sú að við hefðum kosið að geta viðhaldið óbreyttu ástandi, þ.e. hafa opinn aðgang fyrir okkar sjávarafurðir og útflutning á matvörum en um leið að viðhalda þessu banni. Það var ástand sem okkur líkaði ágætlega við en eftir því sem málin þróuðust, sérstaklega löggjöf Evrópusambandsins á matvælasviði, urðu varnir okkar stöðugt minni.

Það er alveg rétt að á sínum tíma var þessi fyrirvari gerður hvað varðaði landbúnaðinn og raunar sjávarútveginn í upphafi líka eins og ég rakti í ræðu minni. Það var hins vegar gert á grundvelli allt annarrar matvælalöggjafar. Nú er komin ný matvælalöggjöf en við reyndum að koma í veg fyrir að þurfa að taka yfir hluta hennar. Það var hins vegar orðið fullreynt og þess vegna urðum við að fallast á að taka upp þessa matvælalöggjöf en reyna þá að gera það með þeim hætti að við reistum eins háar varnir og mögulegt var.

Hæstv. ráðherra segir að ég ætti að koma með honum í lið og segja: Við skulum berjast um á grundvelli þess frumvarps sem hann leggur fram. Ég skal vera heiðarlegur í þessum efnum. Það er niðurstaða mín eftir að hafa skoðað þessi mál að hæstv. ráðherra sé, svo ég taki ekki allt of mikið upp í mig, að berjast um á ákaflega þunnum ís á þessum lagalega grundvelli. Ég hef miklar áhyggjur af því að hæstv. ráðherra tefli með þessum hætti mjög í tvísýnu og þegar lyktir málsins verði ljósar getum við lent í því að staða okkar verði verri en sú sem lagt var af stað með í þeim frumvörpum sem ég mælti fyrir. Þar var þó búið að fara ofan í lagalegar forsendur þessarar ákvörðunar. Ég ber mikinn kvíðboga fyrir því ef niðurstaðan verður sú. Ég óttast að hæstv. ráðherra sé með svo veigalítil lagaleg rök á bak við gjörðir sínar (Forseti hringir.) að málið sé í fullkominni tvísýnu. Þess vegna tel ég að hæstv. ráðherra sé fyrst og fremst að reyna að kaupa sér gálgafrest.