137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

147. mál
[22:23]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar í seinna andsvari mínu að taka aðeins saman það sem mér finnst vera ábótavant í þessu frumvarpi. Í fyrsta lagi, og það getum við hæstv. ráðherra bara verið sammála um, er dapurlegt að við að taka upp samræmdar reglur Evrópusambandsins þurfum við að setja lakari heilbrigðiskröfur en við höfum núna og hugsanlega fylgi því lakara matvælaöryggi.

Í öðru lagi legg ég til við hæstv. ráðherra að hann kippi út ýmsum breytingum sem hafa ekkert með tilskipunina að gera, til þess að flýta fyrir þeim nauðsynlegu breytingum sem þarf að gera vegna sjávarútvegsins. Laumufarþegunum sé hent út og þeim frestað.

Í þriðja lagi er texti reglugerðarinnar allt of óljós og allt of mikið um heimildir ráðherra. Textann þarf að vinna betur, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, þannig að hér sé ekki um beina þýðingu á reglugerð Evrópusambandsins að ræða heldur verði unninn upp úr henni lagalegur texti sem þeir sem vinna á þessu sviði, hvort sem er hjá Matvælastofnun eða heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga eða jafnvel Umhverfisstofnun, geti farið eftir. Þar standi ekki að leitast skuli við að forðast að fólk verði fyrir sýkingum þegar í núverandi lagatextum stendur að bannað sé að setja á markað heilsuspillandi matvæli.