137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í morgun birtist á forsíðu Fréttablaðsins, aðalupplýsingamiðils ríkisstjórnarinnar, fyrirsögnin „Lán vegna Icesave eru á hagstæðustu kjörunum“. Samkvæmt fréttinni munu þetta vera upplýsingar upp úr minnisblaði frá Seðlabanka Íslands sem átti að leggja fram í fjárlaganefnd í morgun. Ef þessi frétt er rétt er þarna verið að leggja fram minnisblað frá Seðlabankanum þar sem reynt er að færa rök fyrir því að lánið frá Bretum og Hollendingum vegna Icesave séu í raun miklu hagstæðari og á betri vöxtum en hin. Reyndar eru hin lánin á miklu lægri vöxtum en það er sagt að ef þau lán væru á föstum vöxtum en ekki breytilegum væru vextir þeirra líklega miklu hærri sem er í algjörri mótsögn við forsendurnar í greinargerð Seðlabankans sjálfs þar sem hann metur stöðu ríkisins og getu þess til að greiða og forsendur fjármálaráðuneytisins svoleiðis að það er greinilega misjafnt, ef fréttin er rétt, hvaða forsendur menn gefa sér.

Í þessari frétt sem skrifuð er af fyrrum frambjóðanda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í 1. sæti í alþingiskosningum og einum virkasta meðliminum þar til margra ára, sem hefur verið mjög duglegur að flytja okkur fréttir af kostum Icesave-lánsins, er jafnframt gerð grein fyrir því að þessi lán séu á svokölluðum Cirr-vöxtum, þ.e. Icesave-lánin, og að á þeim sé eitthvert álag. En það gleymist líka að lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum eru lögð inn, þau eru reyndar að lána á línu, svoleiðis að á þau leggst eingöngu álagið. Vextirnir eru miklu hagstæðari en hér, þeir eru í raun bara brot af því sem vextirnir á Icesave-láninu eru. Það væri áhugavert ef hv. formaður fjárlaganefndar gæti útskýrt fyrir okkur mat sitt á þessu minnisblaði ef það hefur þá yfir höfuð komið fram. (Utanrrh.: Frétta…)