137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á innganginum að þessari fyrirspurn varðandi það hverjir eru upplýsingamiðlar og tengiliðir við fjárlaganefnd. Ég get upplýst hv. þingmann um að minnisblað frá Seðlabankanum barst ekki á síðasta fund fjárlaganefndar sem var í gær. Þar vorum við með Peter Dyrberg og tókum svo ákvörðun um það síðar á fundinum að fara í úttekt á vegum Hagfræðistofnunar til að skoða málið betur þar sem m.a. á að skoða þessi kjör öllsömul.

Í morgun hittist fimm manna hópur úr fjárlaganefnd sem eru fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna til að leggja á ráðin um hvernig við högum vinnunni í næstu viku. Ekkert vinnuplagg hefur komið frá Seðlabankanum varðandi þessa þætti og ég þekki ekki þá heimildarmenn sem eru hér á bak við. Aftur á móti er jafnaugljóst að það er mjög mikilvægt, og ein af mikilvægustu forsendunum í sambandi við umfjöllunina um málið í heild, að meta vexti. Það er heldur engin launung á því að ýmsar samanburðartölur hafa komið upp. Það hefur líka komið fram í umræðum í fjárlaganefnd varðandi Seðlabankann að menn verða að átta sig á því að þegar þeir eru að stilla upp lánasafni íslenska ríkisins skiptir miklu máli að vera með skammtímalán og langtímalán. Það eru mismunandi vextir. Eitt af vandamálum bankakerfisins fyrir hrun var það að þeir voru allir farnir að fjármagna sig á skammtímalínum til skamms tíma, einfaldlega vegna þess að það voru betri kjör, en það kom illilega í bakið á þeim. Rök hafa verið færð fyrir því af hverju hér eru settir fastir vextir, bæði út frá því að samsetning lána sé þá breytileg en líka vegna þess að það sé hagstæðara og öruggara fyrir okkur til lengri tíma að þekkja tölurnar en að vera í dægursveiflum samtímans. Líka hefur verið bent á að það eru uppgreiðsluákvæði í þessu þannig að ef við sjáum fram á að það sé miklu betra að færa þetta yfir í einhver önnur lán megum við greiða það án sérstaks kostnaðar.

Ég ætla ekki að leggja mat á þetta. Þetta er hluti af því sem við fáum núna í nefndarálitinu frá efnahags- og skattanefnd og þá væntanlega frá stjórnarandstöðunni líka. Síðan förum við í það að fjalla um þetta í nefndaráliti fjárlaganefndar en það sem hér birtist í Fréttablaðinu eru ekki sérstakar heimildir frá fjárlaganefnd.