137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar, vegna þess að á miðvikudaginn var rifið út úr utanríkismálanefnd málið um Icesave og í efnahags- og skattanefnd var á sama degi tekin út umfjöllun til fjárlaganefndar um sama mál, Icesave. Þessi mál eru ekki útrædd. Það kemur melding frá utanríkisráðherra Hollands um að hann tengi saman Icesave og aðildarumsóknina til ESB. Ég spyr hv. þingmann, formann utanríkismálanefndar, hvort það hafi ekki verið of fljótt að taka málið út.

Auk þess ræddum við rétt áðan að það eru fréttir um að vextirnir á þessu láni séu annaðhvort hagstæðir eða ekki hagstæðir. Er það ekki verkefni efnahags- og skattanefndar? Og hún er búin að ljúka umfjöllun, frú forseti. Mér finnst þetta mjög alvarlegt. Mér finnst alvarlegt líka við stöðu þingflokks hv. þingmanns að þar eru tveir þingmenn sem víkja af fundi nefndanna, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og hv. þm. Lilja Mósesdóttir. Báðir þessir þingmenn víkja af fundum nefndanna en það var vitað að þeir eru á móti málinu.

Ég spyr hv. þingmann hvað sé að gerast í þingflokki Vinstri grænna vegna þess sérstaklega að það er vitað að allur sá þingflokkur er á móti aðild að Evrópusambandinu en samt stendur hann að því (Gripið fram í: Nei.) að það er sótt um og það er búið að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ísland er búið að sækja um, það eru engar viðræður, það er búið að sækja um aðild að Evrópusambandinu með atbeina Vinstri grænna sem unnu mesta kosningasigur sinn með því að leggja áherslu á að þeir vildu ekki ganga inn í þetta ágæta samband.