137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það úir og grúir og ægir öllu saman í fyrirspurn hv. þingmanns um þetta mál. Orðanotkun hans vekur athygli í þessu samhengi, hann segir annars vegar að Icesave-málið hafi verið rifið út úr utanríkismálanefnd og hins vegar að það hafi verið tekið út úr efnahags- og skattanefnd. (PHB: Rifið líka.) Ég man alls ekki til þess að hv. þm. Pétur Blöndal hafi verið á fundum utanríkismálanefndar þar sem þetta mál var til umræðu nema hann hafi þá kannski verið fluga á vegg sem lítið fór fyrir, en ég get fullvissað hv. þingmann um að málið var tekið út úr utanríkismálanefnd eftir umræður þar og eftir að við höfðum legið þar yfir hugmyndum að nefndaráliti. (Gripið fram í.) Það voru skiptar skoðanir um það að sjálfsögðu og fram komu margvíslegar ábendingar. Það voru gerðar á því breytingar til að koma til móts við þau sjónarmið sem höfðu komið fram í umræðum nefndarmanna. Ég veit ekki hvernig málið var afgreitt út úr hv. efnahags- og skattanefnd, en út úr utanríkismálanefnd var málið ekki rifið eins og hv. þingmaður sagði. Það var afgreitt út úr nefndinni, tekið út úr nefndinni. Það fór engin atkvæðagreiðsla fram um það, var ekki ágreiningur um að afgreiða málið út úr nefndinni, en að sjálfsögðu var boðað að það yrðu sérstök álit frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, frá þingmanni Framsóknarflokksins og frá fulltrúa Borgarahreyfingarinnar. Það var ekki neinn asi á málinu þar.

Nú spyr hv. þingmaður hvort það hafi verið tekið út of fljótt. Málið er á forræði fjárlaganefndar svo að því sé haldið til haga. Fjárlaganefnd óskaði eftir umsögn þessara tveggja nefnda um tiltekna þætti málsins og við fjölluðum að sjálfsögðu um þá í áliti okkar og skiluðum því til fjárlaganefndar. Þar er að finna ýmsar ábendingar um hluti sem þyrftu og mættu fara betur í þessu máli og við mælum með að fjárlaganefnd skoði til þrautar. Málið er alls ekki útrætt á vettvangi þingsins eins og hér hefur komið fram. Það hefur meira að segja verið ákveðið (Forseti hringir.) að taka lengri tíma en upphaflegar áætlanir gerðu kannski ráð fyrir til að farið verði rækilega í saumana á öllu þessu máli (Forseti hringir.) og reynt að finna á því viðunandi lausnir.