137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

samgöngumál – Icesave.

[10:47]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér talaði fulltrúi úr fjárlaganefnd, hv. þm. Ólöf Nordal og bar til mín fyrirspurn til formanns fjárlaganefndar úr ræðustól Alþingis án þess að hafa tekið málið þar upp. (ÓN: Ég er að tala við þig sem þingmann …) Ég geri mér fulla grein fyrir því en aftur á móti vek ég þar með athygli á því að ég hef verið að reyna að halda þessu máli til umræðu í fjárlaganefnd til að fá fram öll sjónarmið, fá fram allar upplýsingar, kalla eftir því, fá lengdan tíma til að við getum komið að málinu sem víðast. Þetta „settlement agreement“ sem vitnað hefur verið í var lagt fram í hinni frægu leynimöppu strax við upphaf málsins, er skjal nr. 1, hefur legið fyrir allan tímann þannig að auðvitað verðum við að ræða þetta mál. Það liggur alveg fyrir að við munum gera það og höfum gert það að hluta.

Það liggur fyrir að Bretarnir gerðu kröfu um það í þessum samningaviðræðum að þeir væru með umsýslu milli 200–300 þúsund reikninga, 240 þúsund reikninga ef ég man rétt, og þeir borguðu út Icesave-skuldbindinguna til allra sinna innlánshafa. Þetta gjald er fyrir það. (Gripið fram í: Ertu að verja það?) Ég er ekkert að verja það, ég er bara að skýra það sem hefur komið fram. En það væri full ástæða til að ræða það betur í fjárlaganefnd og fá betri skýringar á því og ekki nema full ástæða til. Það er hluti af okkar vinnu. Ég ætla ekki að biðjast undan að ræða það í þingsal. Aftur á móti finnst mér óeðlilegt að ég lendi í því að svara því áður en ég fæ tækifæri til að skoða það með hv. þm. Ólöfu Nordal í fjárlaganefnd með aðilum sem geta betur upplýst hvernig þeir samningar fóru fram. Ég held að að væri afar mikilvægt og að við kæmumst sameiginlega að niðurstöðu um hvort það væri eðlilegt eða óeðlilegt, hvort menn hafi samið af sér eða hvort þetta væri eðlilegt gjald fyrir þá þjónustu sem Bretar tóku að sér við útborgun á Icesave-reikningunum. Ég ætla að áskilja mér rétt til að svara því í fjárlaganefnd og í framhaldi af nefndaráliti sem hér kemur vonandi fram eftir verslunarmannahelgi. En ég er aðeins að vekja athygli á því að þetta er mál af þeirri stærðargráðu að það á auðvitað að ræðast í yfirvegun og við berum auðvitað öll hagsmuni Íslendinga fyrir brjósti nr. eitt, tvö og þrjú. Okkur greinir á hvar þessir hagsmunir eru eða hvernig þeir eru en ég biðst undan að menn haldi endalaust áfram að reyna að þyrla upp moldviðri (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að reyna að leysa málið.