137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

samgöngumál – Icesave.

[10:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég vona að ég misbjóði ekki hv. þm. Guðbjarti Hannessyni með því að nefna eitthvað sem hann telur ekki við hæfi að ræða í þingsal og vill frekar fjalla um í nefnd. Ég skal reyna að halda mig bara við það sem ég ræddi áðan þó að mér sé eins og öðrum þingmönnum algerlega misboðið við þessar nýjustu upplýsingar sem reyndar voru að einhverju leyti komnar fram frá hv. þm. Pétri Blöndal vegna lögfræðikostnaðar Hollendinga sem var nánast jafnhár og þeir rukkuðu okkur um líka.

Ég er feginn því, ef rétt er, að þær upplýsingar sem birtast á forsíðu Fréttablaðsins sé raunverulega ekki að finna í minnisblaði frá Seðlabankanum og þetta minnisblað sé kannski ekki til, enda hafa útreikningar Seðlabankans varðandi þetta mál fram að þessu verið gagnrýndir verulega, svo ekki sé meira sagt. Raunar þykir mér dálítið undarlegt ef ríkisstjórnin ætlaði að treysta á upplýsingar frá Seðlabankanum í þessu máli um möguleika ríkisins á því að endurgreiða lán því það hefur enginn seðlabanki nokkurn tíma í sögu heimsins komist að þeirri niðurstöðu að sitt eigið ríki væri ekki fært um að greiða lán sem verið væri að taka. Að ætla Seðlabankanum að greina þetta fyrir sig er í rauninni eins og ef Landsbanki Íslands hefði á sínum tíma beðið greiningardeildina sína að meta það hvort lán sem bankinn hefði verið að taka mundi nokkuð setja hann á hausinn.

Vonandi verður sú vika sem í hönd fer hjá fjárlaganefnd nýtt vel til að afla upplýsinga utanaðkomandi manna, manna sem eru ekki háðir ríkisstjórninni á einn eða annan hátt, vegna þess að þá treysti ég því að menn muni á endanum breyta viðhorfi sínu til þessa máls og hægt sé að ná um það samstöðu.

Ég vil þakka formanni fjárlaganefndar fyrir að staðfesta að þetta minnisblað hafi ekki komið fram.