137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

samgöngumál – Icesave.

[10:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi alls ekki kvarta yfir því að þetta mál sé flókið, það er misskilningur hjá hv. þingmanni. Ég kvarta ekki yfir því að mál séu flókin. Ég sagði þvert á móti að það þyrfti ríflegan tíma til að fjalla um það.

Varðandi tengingarnar sem hv. þm. Pétur Blöndal gerir á milli Icesave-málsins og umsóknar og viðræðna okkar við Evrópusambandið um aðild að því, þá hafna ég því algerlega að einhver sérstök tenging sé þar á bak við og milli og ég vísa m.a. í orð utanríkisráðherra Svíþjóðar, Carls Bildts, sem fer með formennsku í Evrópusambandinu um þessar mundir þar sem hann vísar því sömuleiðis á bug að þarna séu tengingar á milli.

Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að það kunni að henta einhverjum að búa til slíkar tengingar, eins og t.d. utanríkisráðherra Hollands en það er hans vandamál. Þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að málið hafi verið rifið út í ósætti í utanríkismálanefnd þá vil ég segja að ég kannast ekki við að það hafi verið rifið út í ósætti í utanríkismálanefnd. Það kom vissulega fram að það yrðu mismunandi eða fleiri en eitt nefndarálit í málinu. Það þýðir ekki að það sé ósætti um að málið sé afgreitt og ég spyr um … (Gripið fram í: Það var ósætti.) Nei, það var ekki ósætti um það, (Gripið fram í.) það var engin atkvæðagreiðsla þar sem þess var krafist málið yrði tekið út. Það var afgreitt einum rómi og ég segi það að hv. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gerðu enga athugasemd við þetta og mér finnst satt að segja að þeir hljóti að finna til ábyrgðar sinnar í þessu máli gagnvart þjóðinni og með hliðsjón af forsögu málsins gera þeir það bersýnilega á fundi utanríkismálanefndar. En ég hlýt að velta því fyrir mér hvað á við í þessu efni með hv. þm. Birgi Ármannsson og Pétur H. Blöndal sem hafa tekið til máls í þessu efni. Finna þeir ekki til nokkurrar ábyrgðar sinnar og Sjálfstæðisflokksins í þessu máli?