137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

munnleg skýrsla fjármálaráðherra um eigendastefnu ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

[11:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að tækifæri gefst til að eiga umræðu um þau drög að eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem nú hefur verið send alþingismönnum og unnið hefur verið að í fjármálaráðuneytinu að undanförnu í samstarfi við viðskiptaráðuneytið og fleiri aðila.

Í leiðbeiningum Efnahags- og framfarastofnunarinnar um stjórnarhætti fyrirtækja í eigu ríkisins sem voru gefnar út á árinu 2005 er lögð á það mikil áhersla að ríkið móti sér eigendastefnu og skilgreini meginmarkmið þess með eignarhaldi í fyrirtækjum og skilgreini hlutverk ríkisins varðandi stjórnun þeirra og aðra þætti. Þetta er að sjálfsögðu til að tryggja að ríkið komi ekkert síður en aðrir fram sem upplýstur og virkur eigandi og til að tryggja faglega og skilvirka stjórnun þessara fyrirtækja, þótt í eigu ríkisins séu að hluta eða öllu leyti. Í þessari skýrslu OECD, eða skýrslu sem var gefin út samhliða þessum leiðbeiningum, er jafnframt á það bent að flest lönd hafa á undanförnum árum mótað slíka stefnu um skipulag, eigendahlutverk sitt, um að aðskilja umsýslu eignarhluta í fyrirtækjum frá öðrum þáttum, halda eigninni sjálfstæðri og aðskilinni og svo um reglusetningu varðandi þá markaði sem fyrirtækin starfa á um opinbert eftirlit og þar fram eftir götunum. Því miður hefur ríkið aldrei mótað slíka heildstæða stefnu á Íslandi hvað varðar einstaka tegund fyrirtækja sem þó hefði getað verið ærin ástæða til á umliðnum árum. Tökum sem dæmi orkufyrirtæki sem hafa verið í eigu ríkisins að stærstum hluta og eru enn eða þá fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki almennt sem varanlega eða tímabundið eru í eigu ríkisins.

Þeim drögum að eigendastefnu sem hér er nú rædd er ætlað að skýra aðkomu ríkisins sérstaklega sem eiganda að fjármálafyrirtækjum. Það er fjallað um markmið ríkisins með eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum eða hvernig það er til komið, hvernig skipulagi eigandahlutverksins skuli háttað. Það eru tilgreindar ákveðnar meginreglur sem ríkið setji sér sem eiganda og settar fram ákveðnar kröfur og viðmið varðandi aðkomu ríkisins að þessum rekstri. Þessi eigendastefna er almenns eðlis og miðar að því að skapa traust á ríkinu sem eiganda. Í því sambandi er lögð höfuðáhersla á það að ríkið fari að sjálfsögðu að þeim leikreglum sem gilda almennt á markaði. Þannig mun ríkið t.d. miða aðkomu sína að rekstri fjármálafyrirtækja sem eiganda í samræmi við félagsform þeirra fyrirtækja sem það á eignarhlut í líkt og aðrir eigendur fyrirtækja og markaða gera að sjálfsögðu. Það skiptir máli hvort um er að ræða hlutafélagabanka eða sparisjóð svo dæmi sé tekið, eða fjármálafyrirtæki af öðrum toga.

Það er jafnframt hnykkt á því í þessari stefnu að stjórnir fjármálafyrirtækjanna, algerlega óháð því að ríkið sé eigandi, eigi að bera ábyrgð á rekstri og að slík ábyrgð verði ekki frá þeim tekin þrátt fyrir að ríkið skipi eigendahlutverki sínu t.d. með þeim hætti að setja á fót Bankasýslu ríkisins. Allir eigendur fyrirtækja hafa tiltekin markmið og áherslur með eignarhaldi sínu og ríkið er þar engin undantekning. En þau geta að sjálfsögðu verið mismunandi í einhverjum mæli eftir því hver eigandinn er. Sem eigandi í fjármálafyrirtækjum þarf ríkið að hafa mótaða afstöðu til þess hvernig æskilegt sé að starfsemi þeirra sé háttað. Á sama tíma þarf að tryggja að afskipti eigandans af fjármálafyrirtækjum séu skipuleg, gagnsæ, hafin yfir vafa og sett fram faglega og málefnalega. Með eigendastefnu ríkisins er ríkið þannig að gera ljósar áherslur sínar sem eigandi í fjármálafyrirtækjum gagnvart stjórnarmönnum sem sitja fyrir hönd ríkisins í fyrirtækjunum, gagnvart öðrum eigendum og ekki síst gagnvart almenningi. Stjórnarmönnum ríkisins er þar með ljóst fyrir hvað ríkið stendur sem eigandi og þeir bera ábyrgð á því að koma þeim sjónarmiðum á framfæri í þeim stjórnum sem þeir sitja í. Þótt vissulega séu stjórnarmenn fyrst og fremst bundnir af sannfæringu sinni og eigi að hugsa um hag fyrirtækisins telur ríkið að þessir þættir fari saman, þ.e. hagur þess sem eiganda í fyrirtækjunum og velferð fyrirtækjanna sjálfra. Eigendastefnan á þannig við hvort sem ríkið á fyrirtæki að fullu, á í þeim meiri hluta eða heldur einungis á litlum minni hluta.

Eigendastefnan var eins og áður sagði unnin í fjármálaráðuneytinu í samráði við viðskiptaráðuneytið. Þar var stuðst við áðurnefndar leiðbeiningar frá OECD og það var stuðst við eigendastefnu nokkurra landa sem mótuð hefur verið, einkum Noregs og Svíþjóðar, en þar hefur með mjög metnaðarfullum hætti verið unnið stefnumótandi starf af þessu tagi. Það var einnig stuðst við nýlegar leiðbeiningar um stjórnunarhætti fyrirtækja og bestu venjur í þeim efnum sem nú liggja fyrir, m.a. það sem hér hefur verið gefið út af Kauphöllinni, Viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins. Þá var einnig haft um þetta samráð við sérstakan starfshóp sem hefur umsjón með endurreisn fjármálakerfisins. Það er ætlunin að sú eigendastefna sem nú er verið að kynna í drögum verði fyrirmynd að almennri eigendastefnu ríkisins sem unnin verði á næstu mánuðum og taki þá til allra þeirra félaga og fyrirtækja sem ríkið á hlut í.

Stefnan sem hv. þingmenn hafa á sínum borðum skiptist í fjóra meginþætti. Í I. hluta er fjallað um markmið ríkisins með eignarhaldi í fjármálafyrirtækjum og þar eru sett fram þrjú meginmarkmið og fjögur undirmarkmið. Meginmarkmiðin eru:

1. Að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs og öflugs fjármálakerfis sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags.

2. Að byggja upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði, að rekstur og stjórnun fjármálafyrirtækja séu hafin yfir vafa og að leiðbeiningar og reglur sem unnið er eftir séu skýrar og aðgengilegar.

3. Lögð er á það áhersla að ríkið hafi eðlilegan arð af því fé sem það leggur til íslenskra fjármálafyrirtækja. Það er þó rétt að vekja sérstaklega athygli á því í því sambandi, samanber tölulið 3 í kafla I, að meginmarkmið ríkisins er að sjálfsögðu ekki bara það að hámarka arð af rekstri fyrirtækjanna sem slíkra. Mikilvægasti ávinningur samfélagsins og þar með réttlæting aðkomu ríkisins að þessu er að sjálfsögðu fólgin í skilvirkri þjónustu bankakerfisins og þeim hlut sem því er ætlað að inna af hendi í endurreisn efnahags- og atvinnulífs á Íslandi. Það verður hinn raunverulegi arður sem miklu meira máli skiptir en hitt þó að ríkið verði eðlilega að ætla rekstri sínum að þessu leyti að skila eðlilegri ávöxtun á því fé sem í það er lagt.

Síðan er fjallað um þetta nánar hvað varðar markmiðin í tölusettum undirmarkmiðum sem ég tímans vegna hleyp yfir.

Í II. hluta stefnunnar er gerð grein fyrir skipulagi eigendahlutverksins. Þar hefur verið mörkuð sú stefna að eignarhlutir og þar með eigendahlutverk ríkisins gagnvart hlutafélögum og almennt eigum ríkisins þar sem það er í meiri hluta sé hjá einu ráðuneyti, þ.e. fjármálaráðuneytinu. Þannig hefur því ekki verið fyrir komið hjá okkur fram að þessu. Þannig eru opinber hlutafélög nú dreifð á Stjórnarráðið. Leiðbeiningar og ráð og sömuleiðis fyrirkomulag þessara mála hjá flestum ríkjum er að hinu eiginlega eigendahlutverki ríkisins sé haldið á einum stað og þar sé um samræmda framkvæmd að ræða. Með þessu er hægt að draga skýrar línur milli hlutverks ríkisins sem eiganda annars vegar og annarra hlutverka þess, eftirlits- og stjórnsýsluþáttanna o.s.frv. Þessar breytingar eiga að taka gildi samhliða breytingum á lögum um Stjórnarráð Íslands sem nú eru til meðferðar á Alþingi.

Hvað fyrirkomulagið varðar á þessu sviði er sömuleiðis til umfjöllunar frumvarp til laga um Bankasýslu ríkisins, þar verði til sú eining sem fari tímabundið með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem stefnir í að verða umtalsvert, a.m.k. á einhverju árabili, væntanlega að halda 100% eignarhlut í langstærsta banka þjóðarinnar, eiga umtalsverða eignarhluti eða stofnfjárhluti í sparisjóðum og eiga minni háttar hluti, ef ekki að fullu eignarhald í Kaupþingi og Íslandsbanka. Það skýrist á næstu vikum hvernig til tekst í þeim efnum. Í stefnunni er sömuleiðis fjallað rækilega um þátt hvers og eins í þessum efnum, þ.e. ríkisins sem eiganda, Alþingis sem löggjafar- og eftirlitsaðila, fjármálaráðuneytisins sjálfs og þá Bankasýslunnar sem eignarhaldarans.

Í III. hluta stefnunnar eru settar fram meginreglur sem ríkið vill halda í heiðri sem eiganda í fjármálafyrirtækjum. Þar er t.d. komið inn á starfsmannastefnu, samskipti, upplýsingagjöf og margt fleira.

Í IV. og síðasta lagi eru settar fram á grundvelli markmiða ríkisins með eignarhaldi í fjármálafyrirtækjunum og meginreglna þess sem eiganda þær helstu kröfur og viðmið varðandi starfsemi þeirra sem ríkið vill leggja áherslu á. Stjórnarmenn og aðrir sem koma með einhverjum hætti að stjórn eða rekstri þessara fyrirtækja fyrir hönd ríkisins skulu í störfum sínum vinna að því að þeim sé framfylgt. Þessum kafla er skipt upp í sjö tölusetta liði sem tíminn leyfir ekki að fara yfir en þeir eru:

1. Um samskipti ríkisins og fjármálafyrirtækja sem það á eignarhluti í.

2. Um stefnumörkun og vinnulag.

3. Um starfshætti bankaráða og -stjórna

4. Um upplýsingagjöf ríkisins og fjármálafyrirtækjanna.

5. Um eftirlit.

6. Um launakjör þar sem lögð er áhersla á hófsemi í launakjörum.

7. Um jafnrétti og jafnræði þar sem m.a. jafnlaunastefna og fullt jafnrétti kynja er sérstaklega fram hafið.

Frú forseti. Ég held að það sé mjög æskilegt að við náum að eiga svolitlar umræður um þetta mál og ég fagna því. Sömuleiðis væri gott ef hv. viðskiptanefnd, þrátt fyrir annir og sumartíma, gæti séð sér fært að fjalla um málið áður en drög þessi verða endanlega gefin út sem mótuð stefna sem áríðandi er að gert verði sem fyrst. Meðal annars vegna þeirra breytinga sem nú standa yfir og þess sem í vændum er í fjármálafyrirtækjunum held ég að það sé mjög æskilegt að ekki síðar en samhliða því að bankarnir verða loks endanlega fjármagnaðar og leggja af stað út í lífið sem fullburða stofnanir liggi áherslur ríkisins fyrir að þessu leyti. Vonandi verður hægt að ljúka þessari vinnu á næstu vikum og allar góðar ábendingar hér um eru að sjálfsögðu vel þegnar.