137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[13:40]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um Bankasýslu ríkisins. Markmið þessa frumvarps er að fjarlægja eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og jafnvel öðrum fyrirtækjum eins og kostur er frá framkvæmdarvaldinu. Lagt er til að sett verði á fót sérstök ríkisstofnun sem heyri undir fjármálaráðherra sem fer með þennan eignarhlut ríkisins. Ekki er gert ráð fyrir að þessi eignarhlutur verði lengi í eigu ríkisins. Hámarkstími þessa fyrirkomulags, samkvæmt frumvarpinu áður en gerðar voru á því breytingar, var fimm ár.

Nokkuð var rætt um það í nefndinni hvort Bankasýslan ætti að vera stofnun eða hlutafélag. Meiri hlutinn taldi stofnanafyrirkomulagið betra þar sem ábyrgðarkeðjan er mjög skýr, ramminn afmarkaður og almennar reglur um ríkisrekstur eiga við. Slíkt er talið henta þeim markmiðum og starfsrömmum sem Bankasýslan lýtur.

Gert er ráð fyrir því að fjármálaráðherra skipi þriggja manna stjórn Bankasýslunnar og skulu stjórnarmenn uppfylla ströng hæfisskilyrði sem nánar eru skilgreind í 6. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir því í breytingartillögu hv. formanns viðskiptanefndar að fjármálaráðherra leggi síðan tillögur sínar um stjórn Bankasýslunnar fyrir hv. viðskiptanefnd. Stjórnin ræður síðan forstjóra sem einnig skal uppfylla ströng hæfisskilyrði sem skilgreind eru í 6. gr. frumvarpsins. Um þessa skipan leggur meiri hlutinn áherslu á að jafnréttissjónarmið skuli höfð í heiðri og síðan framkvæmd.

Þá er í 7. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir því að stjórn Bankasýslunnar skipi þriggja manna valnefnd er tilnefni aðila í stjórnir fyrirtækja og bankaráða fyrir hönd ríkisins. Lögð er áhersla á hæfi og eðlilega kynjaskiptingu þar eins og annars staðar í frumvarpinu. Verkefni Bankasýslunnar eru tilgreind í 4. gr. frumvarpsins. Þau eru fyrst og fremst eins og ég hef þegar sagt að fara með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum og hugsanlega á öðrum félögum, að sjá um samskipti ríkisins við stjórnir umræddra fyrirtækja og sjá um að eigendastefnu ríkisins sé framfylgt.

Í 5. gr. frumvarpsins er talað um samkeppnissjónarmið og að mikilvægt sé að stofnunin kappkosti að efla og styrkja samkeppni á fjármálamarkaði. Meiri hlutinn undirstrikar að þó ríkið hafi sett sér eigendastefnu er hún einungis rammi til að vinna innan og í henni er lögð áhersla á að einstaka fjármálastofnanir marki sér sérstöðu og framtíðarsýn. Eigendastefnan á því á engan hátt að hindra eðlilega samkeppni á milli fjármálafyrirtækja. Hv. efnahags- og skattanefnd hefur lagt til að ekki væri óeðlilegt að eignaumsýslufélag það sem hún hefur verið að vinna með færi undir Bankasýsluna til að gæta þeirra sjónarmiða að félagið verði ekki fyrir sterkum pólitískum áhrifum sem geta komið fram ef félagið heyrir beint undir fjármálaráðherra.

Nokkrar utanaðkomandi umsagnir bárust nefndinni vegna málsins. Fyrst vil ég nefna umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja sem tala um mikilvægi þess að bankar móti sér stefnu og sérstöðu til að tryggja heilbrigða samkeppni.

Í því frumvarpi sem nú er til umfjöllunar er sérstaklega fjallað um samkeppnisþáttinn í 5. gr. Einnig er talað um að Bankasýslan eigi að starfa samkvæmt eigendastefnu ríkisins og í þeim drögum sem hv. viðskiptanefnd hefur haft til umfjöllunar og hefur verið fjallað um á þingi í dag er sterk áhersla á að bankar tilgreini sérstöðu sína og framtíðarsýn. Því er ljóst að komið hefur verið mjög til móts við þessa athugasemd Samtaka fjármálafyrirtækja.

Önnur athugasemd frá Samtökum fjármálafyrirtækja snýr að beinum afskiptum Bankasýslunnar að daglegum rekstri einstakra fjármálastofnana. Meiri hluti nefndarinnar taldi þessa athugasemd réttmæta og leggur því til breytingu á 4. gr. frumvarpsins þannig að Bankasýslan hafi samskipti sín í gegnum stjórnir fyrirtækjanna en ekki beint við þau sjálf. Athugasemdum Fjármálaeftirlitsins um stjórnarnefnd Bankasýslunnar hefur verið mætt með því að velja Bankasýslunni stofnanaform fremur en hlutafélagaform þannig að stjórnarmenn séu fyrst og fremst ábyrgir gagnvart Bankasýslunni og fjármálaráðherra en njóta að sjálfsögðu réttinda og hafi skyldur sem stjórnarmenn annarra fjármálafyrirtækja.

Í umsögn Viðskiptaráðs segir um stjórnarhætti hins opinbera, með leyfi forseta: „Viðskiptaráð fagnar því að settar séu skýrar leikreglur um eigendahlutverk ríkisins, svo og þeim áherslum frumvarpsins og endurreisn, virka samkeppni, gagnsæi og upplýsingamiðlun til almennings. Ráðið hefur um nokkurt skeið talað fyrir því að hið opinbera og opinber fyrirtæki tileinki sér góða stjórnarhætti og gaf m.a. út leiðbeiningar um stjórnarhætti opinberra fyrirtækja í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Kauphöllina. Leiðbeiningar þessar byggja að meginstefnu til á leiðbeiningum Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem fjallað er um í athugasemdum frumvarpsins. Stór hluti fyrrgreindra leiðbeininga hefur ratað með einum eða öðrum hætti í frumvarp þetta. Þar má nefna eigendastefnu hins opinbera, takmarkað svigrúm ráðherra til að beina tilmælum til stjórnar stofnunar, að forstjóri beri ábyrgð gagnvart stjórn, að verkefni stjórnar séu vel skilgreind, virka upplýsingamiðlun og fleira. Þessum áherslum ber að fagna.“

Ljóst er að í hinu síkvika umhverfi dagsins í dag hefur ýmislegt breyst frá því að frumvarpið var lagt fram í júní. Nú liggur t.d. fyrir samkomulag við skilanefndir viðskiptabankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands, þar sem gert er ráð fyrir því að skilanefndir Glitnis og Kaupþings að undangengnu samráði við kröfuhafa geti eignast meiri hluta hlutafjár Íslandsbanka og Nýja Kaupþings en jafnframt er ljóst að Landsbanki Íslands mun verða að fullu í eigu ríkisins. Auðvitað hvarflaði að manni við þessi tíðindi sú hugsun að þörfin fyrir Bankasýsluna hafi minnkað. En þegar maður spyr sig spurningarinnar stóru: Ef við stofnum ekki Bankasýsluna, hvað gerum við þá með Landsbanka Íslands, með hluti okkar í Glitni og Kaupþingi, með hugsanlegan hlut okkar í sparisjóðum, með hlut okkar í fyrirtækjum og félögum sem kunna að falla undir Bankasýsluna? Auk þess skulum við muna að það er ekki endanlega ljóst hvort samkomulagið um bankana muni verða að veruleika, það liggur ekki fyrir fyrr en í haust. Svar mitt við þessari spurningu er því: Höldum okkur við Bankasýsluna og það ágæta endurskoðaða frumvarp sem er til umfjöllunar. Hugsanlega verður hún umfangsminni en efni stóðu til í upphafi og líftími hennar jafnvel styttri sem er vel. Mér hefur ekki verið bent á neina betri leið til að tryggja fjarlægð fjármálafyrirtækja frá framkvæmdarvaldinu, með fullri virðingu fyrir skrifborði og fangi fjármálaráðherra, faglega skipan í stjórnir og stjórnendahlutverk, heilbrigða samkeppni fjármálastofnana með skýra stefnu og framtíðarsýn. Stofnun og rekstur Bankasýslunnar mun að sjálfsögðu kosta sitt en aðrar útfærslur á þeim verkefnum sem hún mun sinna munu líka kosta sitt. Deild í ráðuneyti með tilheyrandi sérfræðivinnu kostar sitt eins og dæmin sanna.

Stofnun ríkisstofnunar eins og Bankasýslunnar er ekki helsta stefnumál neins stjórnmálaflokks en veruleiki okkar nú sumarið 2009 er sá að við sitjum með stóran hluta fjármálafyrirtækja landsins í ríkisfanginu og nú viljum við koma þeim blíðlega á fæturna í þeirri von að þau verði smám saman fullburða og sjálfráða eftir faglegt uppeldi hjá Bankasýslunni.