137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[13:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég skrifa undir nefndarálit frá minni hluta viðskiptanefndar varðandi Bankasýslu ríkisins. Ástæðan fyrir því að ég er sammála öðrum í minni hlutanum er að ég er alls ekki sannfærð um að tímabært sé að ræða þetta mál í 2. umr. Eins og kemur fram í nefndaráliti okkar höfum við töluverðar áhyggjur af þessu fyrirkomulagi og eftir þá vinnu sem hefur farið fram í nefndinni er ég ekki viss um hvort við séum algerlega orðin sammála eða það væri orðið skýrt að þessari umsýslu væri best komið fyrir í nýrri ríkisstofnun. Síðan voru punktar sem varða eigendastefnu sem við ræddum um í morgun.

Þegar við vorum að klára þetta álit og klára málið út úr nefndinni lá eigendastefnan ekki fyrir þrátt fyrir að margoft væri búið að óska eftir að fá stefnuna svo hægt væri að kynna sér hana og vinna með hana samhliða frumvarpinu. Því miður varð það ekki því það dróst mjög að leggja eigendastefnuna fram í ríkisstjórn. Tel ég að það skaði málið að eigendastefna skuli ekki hafa verið lögð fram samhliða því að nefndin var að fjalla um frumvarpið.

Ég verð hins vegar að segja að ástæðan fyrir því að ég er ekki á breytingartillögu félaga minna í minni hlutanum um að fresta gildistökunni og að Bankasýslunni verði bara komið á fót ef allir þrír bankarnir verða þarna undir. Ég get tekið undir hluta af breytingartillögunni, ég tel mjög eðlilegt að fresta gildistökunni því við þurfum að skoða þetta mál betur og sjá fyrir okkur hvernig þróunin verður en ég er hins vegar ekki alveg fyllilega sannfærð um það hvort við þurfum Bankasýslu yfirleitt. Helstu rökin í mínum huga fyrir því af hverju við þyrftum hugsanlega að stofna Bankasýslu eru tölurnar sem við erum að fást við, upphæðirnar. Það hefur mikið verið talað um kostnað við rekstur Bankasýslunnar, það séu 70–80 millj. kr. árlega. Ef ég mætti kannski setja tölur svolítið í samhengi þá er ársreikningur ríkisins, af því að við erum að tala um útgjöld, þá erum við að tala um einhvers staðar í kringum 500 milljarða en eignir bankanna, sem eru þá nýju bankarnir, þá er efnahagsreikningur upp á 2.000 milljarða. Þó að Landsbankinn verði einn þarna undir og einhverjir sparisjóðir þá erum við að tala um stærðargráðu upp á alveg 1.000–1.200 milljarða sem Bankasýslan er með undir sér í gegnum störf sín. Þetta eru alveg gífurlegar upphæðir og þess vegna finnst mér kannski erfitt að eiga að fara að sjá eftir þeim 70–80 millj. þegar við erum að tala um að varsla 1.000 milljarða.

Ég held að við ættum kannski að hafa aðeins lært af umræðunni sem hefur verið í samfélaginu í gær og í dag þar sem bent var á að við virðumst hafa lagt einhverja tugi milljóna í samningaviðræður um Icesave á meðan þeir sem við vorum að semja við lögðu 1 til 2 milljarða. Við sjáum niðurstöðuna af því og árangurinn af því þannig að þetta er spurning um að setja tölur í svolítið meira samhengi.

Ég er hins vegar mjög ósátt við verkferlið sem tengist endurreisn bankanna, mjög ósátt. Mér finnst að við höfum byrjað á öfugum enda. Við hefðum átt að byrja á því að fá eigendastefnuna og við hefðum þá getað unnið með hana og tillögur samræmingarnefndar um endurreisn bankakerfisins og þær tillögur sem sérfræðingurinn Mats Josefsson hefur lagt fram. Þegar samræmingarnefndin skilaði tillögum sínum 11. febrúar gerðu menn ráð fyrir því að undir lægi 90–95% af bankakerfinu og þess vegna væri mjög mikilvægt að koma á þessu stjórnskipulagi sem við erum að fást við hérna, annars vegar Bankasýslunni og síðan eignaumsýslufélaginu.

Ef ég mætti kannski minna, með leyfi forseta, á hvað það var sem endurreisnarnefnd bankakerfisins lagði til á sínum tíma 11. febrúar þá tala þeir um í sinni skýrslu, með leyfi forseta, að „starfandi bankar verði endurreistir af ríkisstjórninni, bæði rekstrarlega og fjárhagslega. Komið verði á fót eignasýslufélagi, (á ensku: Asset Management Company) sem muni hafa það hlutverk annars vegar að styðja endurreisn stærri fyrirtækja sem gegna mikilvægu hlutverki í íslensku efnahagslífi og hins vegar að endurskipuleggja félög og bjarga verðmætum sem glatast ef félögum fara í þrot. Ríkisstjórnin taki við hlutverki eigenda bankanna og láti bankana vita að viðskipti eigi ekki að ganga fyrir sig með sama hætti og áður.“ — Spurning hvort þetta sé alveg skýrt. — „Stjórnendur banka geri sér grein fyrir því nýja umhverfi sem þeir starfa í og leggi sitt af mörkum og styðji ríkisstjórnina við að koma stefnumálum hennar, varðandi endurreisn efnahagslífsins í framkvæmd. Endurbættur verði laga- og framkvæmdarammi varðandi uppgjör gömlu bankanna. Skipting verðmæta, sem fást við sölu eigna gömlu bankanna, á milli kröfuhafa verði sanngjörn, réttlát og gagnsæ. Íhugað verði að setja upp sjálfstætt eignarhaldsfélag sem fari með hlutabréf ríkisins í bönkum og fjármálastofnunum. Mótuð verði afstaða til framtíðareignarhalds á fjármálastofnunum, m.a. hugsanlega sölu hlutabréfa. Settar verði reglur og eftirlitsrammi í samræmi við það sem gerist best alþjóðlega.“

Ég tel að það sem við erum að fást við hérna, Bankasýslan, sé þetta sjálfstæða eignarhaldsfélag sem fari með hlutabréf ríkisins í bönkunum og fjármálastofnunum. Það er greinilega skýr stefnumörkun hjá meiri hlutanum þess efnis að þeir sjá það ekki ganga upp og vera með hlut ríkisins í sjálfstæðu félagi heldur eigi þetta að vera sjálfstæð stofnun sem verði undir fjármálaráðuneytinu. Í inngangi skýrslunnar sem ég vísa til kemur mjög skýrt fram að ætlunin er að endurskoða tillöguna reglulega eða ársfjórðungslega. Mér taldist til að það væru komnir sex mánuðir síðan skýrslan var lögð fram og ég hef ekki frétt af því enn þá að slík endurskoðun hafi farið fram. Ég tel að það sé mjög tímabært, sérstaklega í ljósi þess sem gerðist um síðustu helgi, samkomulagið við skilanefndina um yfirtöku rekstrar á Nýja Kaupþingi og Íslandsbanka.

Þess vegna held ég að það liggi alveg fyrir að við munum kalla málið inn í viðskiptanefnd aftur á milli 2. og 3. umr. Það hefði leikandi verið hægt að fresta 2. umr. sem samkvæmt þingsköpum og verklagi sem maður hefur séð á þinginu á að vera meginumræða um mál, 2. umr. Þegar þessari umræðu er lokið fara fram ákveðnar atkvæðagreiðslur um breytingartillögur og annað og þar með er búið að festa þær breytingar. Að mínu mati hefði verið mun betra ef við hefðum gefið okkur aðeins betri tíma varðandi þetta stóra mál og horft á það heildstæðar og við hefðum tekið inn Bankasýsluna, við hefðum tekið inn eigendastefnuna, við hefðum tekið inn hvaða vinna er í gangi innan nefndar um endurreisn fjármálakerfisins og hvort hún mundi vilja breyta tillögum sínum í ljósi þess sem hefur gerst. Mig minnir að á fundi viðskiptanefndar núna síðast hafi ein af spurningunum sem hæstv. fjármálaráðherra fékk þegar samkomulag við skilanefndirnar lá fyrir verið: Hvað gerist með eignaumsýsluna, eignaumsýslufélagið, hvað gerist með Bankasýsluna? Það var alveg ljóst af svörum hans að það var ekki alveg skýrt hvað mundi gerast en hann teldi kannski heppilegast að við héldum bara áfram á sömu braut og sæjum síðan til.

Síðan kom fram á fundi í viðskiptanefnd að alla vega væri búið að hægja mjög á stofnun eignaumsýslufélagsins. Menn ætluðu að sjá til hvort nauðsyn væri að stofna það en hér erum við hins vegar að keyra áfram Bankasýsluna.

Ég tel líka mjög mikilvægt þegar við ræðum þetta mál hvað varðar umsýsluna og eignarhlut ríkisins í nýju bönkunum að það liggur fyrir að frá og með 14. ágúst muni ríkið setja 271 milljarð inn í þessa þrjá banka. Það er ekki komið í ljós hvort skilanefndirnar uppfylla þau skilyrði sem Fjármálaeftirlitið gerir til eigenda banka á Íslandi þannig að vel gæti hugsast að við munum vera að reka þrjá banka þannig að það væru þá þrír bankar sem falla hérna undir auk hugsanlega einhverra sparisjóða. Við erum ekki búin að svara því hvers vegna eigum við að trúa því að nýju bankarnir verði betur reknir en þeir gömlu. Hvers vegna ætti þjóðin, við þingmenn sem fulltrúar þjóðarinnar, að treysta því að sama sagan endurtaki sig ekki? Hvað er í stjórn og skipulagi nýju bankanna sem stjórnvöld verða að treysta á sem tryggir skilvirkan, agaðan og faglegan bankarekstur? Þess vegna var það svo óþægilegt þegar maður spyr sig þessara spurninga að í ljósi þeirra upplýsinga sem við fengum í meðferð málsins treystu menn mjög á eigendastefnu ríkisstjórnarinnar til að svara þessum spurningum. Hvað er það sem er í stjórnun og skipulagi nýju bankanna sem mun gera það að verkum að þjóðin geti treyst því að þeir verði betur reknir og það verði betri siðleg viðhorf innan nýju bankanna en voru í þeim gömlu? Við vorum að fást við formið, skipulagið en höfðum ekki þann ramma sem ríkisstjórnin hafði sett utan um þetta.

Ef við förum síðan aðeins í gegnum þetta skemmtilega og áhugaverða plagg um eigendastefnuna þá segir þar að það sem Bankasýsla ríkisins á að gera, með leyfi forseta:

„Bankasýsla ríkisins fer með eigandahlutverk ríkisins í fjármálafyrirtækjum meðan á uppbyggingu og endurreisn fjármálakerfisins stendur. …

Bankasýslan er fagleg umsýslustofnun eignarhluta. Hún lýtur sérstakri stjórn og starfar eftir sérstökum lögum þar sem verkefni hennar eru skýrt skilgreind. Stofnunin fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum fyrir hönd fjármálaráðuneytisins og fara starfsmenn stofnunarinnar með eignarhluti ríkisins og atkvæðarétt þess á hluthafafundum. Stofnunin setur fjármálafyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins viðmið í rekstri með samningum, m.a. um endurskipulagningu fjármálafyrirtækja, og hefur eftirlit með því að settum markmiðum verði náð. …

Stjórn stofnunarinnar skipar sérstaka þriggja manna valnefnd sem tilnefnir fyrir hönd ríkisins aðila til setu í bankaráðum og stjórnum fjármálafyrirtækja.

Bankasýsla ríkisins sér alfarið um samskipti ríkisins sem eiganda við fjármálafyrirtæki sem ríkið á hluti í og tengjast eigandahlutverki þess. Bankastjórnir, stjórnir og stjórnendur fjármálafyrirtækja munu ekki eiga bein samskipti við fjármálaráðuneytið eða ráðherra.“

Síðan er ef við rennum hratt í gegnum helstu meginreglur Bankasýslunnar þá á hún að fylgja þeim í störfum sínum og samskiptum við fjármálafyrirtækið. Það er jafnræði í starfsemi fjármálafyrirtækja og í samskiptum við hluthafa. Gagnsæi í samskiptum ríkisins við fjármálafyrirtækið. Helstu tillögur um ákvörðun eigenda í málefnum sem snerta rekstur fjármálafyrirtækis skulu settar fram, ræddar og bornar upp til samþykkis á aðalfundum þeirra. Bankasýsla ríkisins mun í samvinnu við aðra eigendur ef við á setja árangursviðmið fyrir fyrirtækin, stjórnir og bankaráð bera ábyrgð á því að þeim sé fylgt eftir. Fjármagnsskipan fjármálafyrirtækja skal taka mið af markmiðum sem ríkið hefur með á eignarhaldinu sem og stöðu fyrirtækjanna sjálfra. Samsetning stjórna og bankaráða skal taka af mið af hæfni og fjölbreytni á grundvelli eðlis og starfsemi hvers fyrirtækis. Launafyrirkomulag skal vera gagnsætt og sanngjarnt miðað við almenna framvindu efnahagslífsins og að vel unnin störf stuðli að framgangi: Stjórnir og bankaráð skulu vera sjálfstæð gagnvart stjórnendum og framkvæmdastjórn fyrirtækjanna. — Það er áhugavert að það er talað um sjálfstæði gagnvart stjórnendum og framkvæmdastjórn fyrirtækjanna en hvernig er með sjálfstæði stjórna hins vegar gagnvart Bankasýslunni? — Ætíð skal auglýst í stöður æðstu stjórnenda, svo sem banka- og framkvæmdastjóra. Stjórnar- og bankaráðsmenn skulu vinna eftir skýrum áætlunum og leitast stöðugt við að bæta hæfni sína og ná settum markmiðum. Fjármálafyrirtæki skulu vera meðvituð um samfélagslega ábyrgð sína. Starfsmannastefna fjármálafyrirtækja skal leitast við að tryggja virka þátttöku allra sem þar vinna, greinargóða miðlun upplýsinga til starfsfólks og starfsmannalýðræði. Fullt jafnrétti kynja í launamálum og framgangi starfa innan fyrirtækjanna skal sett í öndvegi.

Ég verð að segja fyrir mig að ég hefði talið mjög þarflegt að við hefðum getað rætt þetta í nefndinni og kallað til sérfræðinga, bæði innan endurreisnarnefndarinnar og þeirra sem eru sérfræðingar í stefnumótun og rætt við þá í samhengi við Bankasýsluna. Þetta var ein af mörgum meginathugasemdum sem við fengum frá Viðskiptaráði og fleiri aðilum að mönnum fannst mjög óþægilegt að hafa ekki eigendastefnuna sem viðmið þegar að því kom að ræða þetta frumvarp og skila inn umsögnum.

Við óskuðum eftir áliti efnahags- og skattanefndar um frumvarpið og þeir bentu sérstaklega á tengslin við eignaumsýslufélagið. Enn á ný erum við þar komin að ákveðnum upphafspunkti því það er algerlega upp í loft núna hver tengslin þar verða og hvort verði almennt stofnað til eignaumsýslufélags. Ég verð líka að gera athugasemd við það að ekki skyldi einn einasti fulltrúi minni hlutans vera viðstaddur afgreiðslu efnahags- og skattanefndar sem er að vísu mjög vel skipuð fólki sem situr líka í viðskiptanefnd.

Ég segi fyrir mína parta ef við förum efnislega í gegnum málið þá hefði mér ekki hugnast að þetta hefði verið sett í opinbert hlutafélag. Það tengist fyrst og fremst gagnsæi og upplýsingaöflun um það hvað Bankasýslan er að gera og þeim gífurlegu fjármunum sem eru þarna undir eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar.

Ég get ekki tekið undir athugasemdir hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur um að við eigum að hætta að leggja áherslu á kynjahlutföllin í stjórnun fyrirtækja. Það væri hins vegar ágætt ef við færum kannski að sjá meiri árangur af þessu. Við höfum stundum hálfhlegið að því innan viðskiptanefndar þar sem konur eru í meiri hluta að við virðumst bara fá karlmenn í mjög fínum jakkafötum í heimsókn til okkar. En það hefur svo sem kannski aldrei verið neinn galli í mínum augum að hitta nokkra karlmenn.

Það sem ég gerði meginathugasemdir við, og ég er mjög sátt við að formaður og meiri hluti nefndarinnar hafi tekið tillit til þeirrar athugasemdar, er skipan stjórnar Bankasýslunnar. Þetta eru sams konar athugasemdir og við gerðum varðandi skipan stjórnar eignaumsýslufélagsins. Við töldum ekki eðlileg þessi miklu tengsl ef markmiðið væri að rjúfa tengslin milli pólitíkur og umsýslunnar á þessum eignarhlutum að það yrði bara fjármálaráðherra sem mundi skipa í stjórn Bankasýslunnar. Það yrði þá hugsanlega gert í einhverjum bakherbergjum eða framherbergjum í fjármálaráðuneytinu.

Hér er komin breytingartillaga frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem ég fagna mjög, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra leggur tillögu um skipun stjórnar Bankasýslunnar fyrir viðskiptanefnd Alþingis og skipar hana að fengnu áliti nefndarinnar.“

Þótt það sé alveg á hreinu að fjármálaráðherra geti náttúrlega algerlega hunsað álit okkar þá ætla ég enn þá að hafa veika von um þessi nýju vinnubrögð sem hefur verið talað svo mikið um hérna að ef það koma alvarlegar athugasemdir frá viðskiptanefnd varðandi tillögur fjármálaráðherra (Gripið fram í.) — ég er nú bjartsýn kona — þá muni fjármálaráðherra taka tillit til þess. Það sem ég tel kannski mikilvægast er að það sé alla vega gagnsæi í tillögunum þannig að það lægi fyrir og það gæti farið fram ákveðin umræða og rökstuðningur fyrir því af hverju er verið að velja þessa einstaklinga í stjórn Bankasýslunnar.

Það eru ýmsir þættir sem ég tel að við þyrftum að skoða betur milli 2. og 3. umr. Mér finnst mjög áhugavert að skoða eigendastefnu sænsku ríkisstjórnarinnar þar sem komið er inn á ákveðna þætti sem ég tel að við mættum kannski impra mun betur á hjá okkur, hvort sem við teljum eðlilegt að það fari inn í lögin um Bankasýsluna eða hvort það fari inn í eigendastefnuna, hlutir t.d. eins og það að mikil áhersla er á því hjá Svíum að almenningur geti mætt á hluthafafundi í ríkisreknum fyrirtækjum. Þeir eru með mjög skýrar reglur um það hvernig skal standa að vali á fólki í stjórnir fyrirtækja. Helstu athugasemdir sem ég gerði kannski við eigendastefnuna tengjast þessum siðareglum eða siðferði og félagslegri ábyrgð ríkisins sem eiganda. Þetta eru hlutir sem ég tel skipta miklu máli að við ræðum og það væri einmitt mjög áhugavert að fá sérfræðinginn Mats Josefsson á fund nefndarinnar á milli umræðna til að við getum vonandi orðið aðeins sáttari öll bæði í meiri og minni hluta um það hverju við erum að skila af okkur og haft betri skilning á því.