137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[14:22]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í annað sinn Bankasýslu ríkisins. Það sem hefur tekið breytingum er raunverulega óverulegt, að nú hefur verið reynt að slá á þá gagnrýni sem helst hefur verið á þetta frumvarp með því að viðskiptanefnd gefi umsögn um þá sem koma til greina sem stjórnarmenn.

Við hlustuðum fyrr í dag á hæstv. fjármálaráðherra flytja drög að eigendastefnu fyrir fjármálastofnanir. Þetta stangast að nokkru leyti á við það vegna þess að í stefnunni kemur skýrt fram að grunnur hennar sé að ríkið þurfi að vera trúverðugur eigandi og það verði að vera hafið yfir allan vafa að ekki séu pólitísk afskipti af daglegum ákvörðunum. Ég hef reyndar bent á að ég saknaði þess að þetta skuli ekki vera eitt af meginmarkmiðum eigendastefnunnar en þar sem hún er í drögum eru líkur á því að því verði breytt. Við skulum alla vega vona það.

Þessi hugsun endurspeglast ekki í því hvernig lagaramminn um þetta allt saman verður vegna þess að í Bankasýslu ríkisins, sem mun skipa stjórn bankanna, er hægt að velja inn pólitískt, það er hægt að raða inn algjörlega pólitískt þar. Það er raunverulega ekki í anda eigendastefnunnar. Við erum hér tveim þrem tímum eftir að kynnt voru drög að eigendastefnu að ræða frumvarp sem raunverulega tekur til þess að ekki verði farið eftir eigendastefnunni, sem er óneitanlega sérstakt þannig að hér stangast hvað á annars horn.

Við ræddum þetta í hv. efnahags- og skattanefnd og þar voru aðallega tvö atriði sem stóðu út af. Það var þetta með stjórnina og hins vegar með félagsformið, hvernig því skyldi háttað. Það var bent á að með því að velja það að þetta væri stofnun en ekki hlutafélag mundum við útiloka að erlendur ríkisborgari gæti orðið framkvæmdastjóri eða forstjóri þessarar nýju stofnunar eða þessa nýja fyrirbæris, en með því að vera með það á hlutafélagaformi er slíkt leyfilegt. Þar sem við erum að leita til bestu hugsanlegu einstaklinga til að stýra þessum apparötum ríkisins er þessi útilokun bagaleg.

Annað atriði er að þetta fellur beint undir kjararáð, að laun forstjóra þessarar svokölluðu Bankasýslu falla undir kjararáð. Enn og aftur bendi ég á gallann við þá hugmyndafræði að hæstv. forsætisráðherra skuli vera hæstlaunaði starfsmaðurinn og laun skuli miðast út frá því þannig að það er ljóst að þarna enn og aftur er verið að skerða möguleika til þess að ráða kannski heppilegasta einstaklinginn. Það er ekki afsökun eins og stjórnarliðar klifa sífellt á að ekki hafi tekist svo vel til í rekstri bankanna með forstjóra á ofurlaunum að það skipti einhverju máli. Jafnframt er hnýtt í þá augljósu staðreynd að það er hægt að laða að hæfa einstaklinga með launum, það er stanslaust hnýtt í þá augljósu staðreynd og bent á bankahrunið í því sambandi. Eins og allir hugsandi menn vita náttúrlega er það í besta falli kjánalegt yfirklór.

Þessi tvö aðalgagnrýnsiatriði, þ.e. annars vegar stjórnin og hins vegar félagsformið, hafa ekki tekið neinum breytingum. Það eina er að menn reyna að fá er einhvers konar syndakvittun með því að viðskiptanefnd fái að gefa umsögn um stjórn eða stjórnarmenn sem hæstv. fjármálaráðherra getur síðan skipað en hann þarf á engan hátt að fara eftir því.

Síðan er náttúrlega grundvallarspurningin að hér á Íslandi gerast hlutirnir það hratt núna að umhverfið breytist skjótt, ekki frá degi til dags heldur frá klukkutíma til klukkutíma. Mál sem bráðlá á í gær eða fyrir hádegi, nú á að gefa sér góðan tíma í að hugsa um þau. Það er því erfitt henda reiður á hvað er að gerast, svo hratt gerast hlutirnir og svo oft breytast ákvarðanirnar.

Helsta röksemdin fyrir Bankasýslu ríkisins var sú að nú væri ríkið að yfirtaka megnið af fjármálakerfi Íslendinga og að það væri rétt að því yrði stjórnað í einhvers konar stofnun. Nú hefur okkur aftur á móti verið sagt að það séu yfirgnæfandi líkur á því að tveir af þrem viðskiptabönkum verði í einkaeign og að Bankasýslan muni hafa umsjón eingöngu með Landsbankanum, eignarhaldsfélagi sem starfsmenn fjármálaráðuneytisins segja að verði uppi í hillu, og síðan er talað um sparisjóðina. Það er engin opinber ákvörðun komin fram í málefnum sparisjóðanna. Þó svo að ljóst sé að einhverjir þeirra þurfa að fara fram á aukið stofnfjárframlag er alls ekki víst hvernig því máli muni lykta og alls ekki víst að þrátt fyrir að ríkið þurfi að koma með stofnfjárframlag í sparisjóðina að það muni eignast meiri hluta í sparisjóðunum þannig að ríkið geti ráðið stefnu stjórnar í krafti atkvæðavægis.

Hlutverk Bankasýslu ríkisins, sem einhver hv. þingmaður benti á að nú mætti kalla Landsbankasýslu ríkisins, hefur minnkað gríðarlega út af fyrrnefndum ástæðum, að Glitnir og Kaupþing lenda líklega í eign kröfuhafa, og því er vandséð út af hverju við erum að halda áfram með þetta mál. Jafnframt vil ég svona að lokum, það er óþarfi að nota allan ræðutímann í þetta, benda á að sá kostnaður, 80 milljónir, sem er áætlað að kosti að reka Bankasýslu ríkisins, er ansi mikill til þess raunverulega að taka völd sem hefðbundið eru í höndum stjórna fjármálastofnana eða þessarar einu fjármálastofnunar sem víst er að fari undir þetta, þ.e. Landsbankans. Þetta eru miklir peningar þó svo að þeir séu auðvitað, eins og bent hefur verið á, smáræði miðað við lögfræðikostnaðinn sem við Íslendingar höfum undirgengist að greiða fyrir Breta út af Icesave-málinu og Hollendinga reyndar líka.

Ég mæli með að frumvarpi um Bankasýslu ríkisins verði vísað aftur til viðskiptanefndar og þar verði tekið tillit til þessarar augljósu gagnrýni, þ.e. númer eitt að félagaforminu verði breytt í hlutafélag þannig að möguleiki sé á í fyrsta lagi að ráða erlendan ríkisborgara, í öðru lagi að hægt sé að reka stofnunina af greiddum arði af bönkunum þannig að þetta lendi ekki á ríkissjóði. Númer tvö verði athugað með stjórnina, að fara að þeim tillögum sem var fjallað um m.a. í efnhags- og skattanefnd en lentu reyndar ekki inni í minnihlutaálit vegna þess að eins og virðist tíðkast nú að málið var rifið út meðan minni hlutinn var ekki á fundi án þess að hann vissi af því þannig að hann fékk því ekki færi á að koma með álit. Númer þrjú að það verði endurskoðað að forstjóri stofnunarinnar falli undir kjararáð vegna þess að það mun binda hendur stjórnar í að ráða þann einstakling sem hún kynni að telja hæfastan. Það getur vel verið að það sé hægt að fá einhvern mjög hæfan einstakling sem hefur mikla reynslu af þessum málum og er hafinn yfir allar efasemdir, það getur vel verið að það sé hægt að fá hann fyrir 935 þús. kr. en það er skammsýni að binda hendur stjórnarinnar áður en kemur að því að finna þennan einstakling.

Ég mæli með því að málinu verði vísað aftur til viðskiptanefndar og hún taki tillit til þessara athugasemda minna.