137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka þá miklu umræðu sem hér hefur farið fram því hún hefur verið mjög upplýsandi um þann grundvallarágreining sem er í þessu máli milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Við erum ekki sammála um hvort þörf sé fyrir stofnun eins og Bankasýsluna. Við erum ekki sammála um hvort það eigi að vera stofnun eða hlutafélag og við erum ekki sammála um hvort, þegar og ef til þessa kemur, ganga eigi frá þessu núna og setja þessa starfsemi af stað með þessum hætti nú eða, eins og Sjálfstæðisflokkurinn eða Borgarahreyfingin hafa lagt til, að gera það einhvern tíma í haust. En þannig er það bara og þetta hefur auðvitað komið fram í störfum nefndarinnar, það er ekkert athugavert við það.

Mig langar aðeins til að nefna að mönnum hefur orðið tíðrætt um að hæstv. fjármálaráðherra séu veitt mikil völd með því frumvarpi sem hér er til umræðu og er þá sérstaklega horft til þess að honum er ætlað að skipa stjórn Bankasýslunnar samkvæmt frumvarpinu. Ég hef flutt breytingartillögu þess efnis að tillögur ráðherra verði lagðar fyrir viðskiptanefnd sem gæfi álit sitt á þeim og það er einn hv. þingmaður sem komið hefur í ræðustól í dag og tekið undir þá tillögu. Aðrir meta það lítils og mér finnst það miður því að ég tel að aðkoma þingsins að skipan í stjórn Bankasýslunnar sé til bóta. En því miður virðast mér alla vega fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Borgarahreyfingar ekki deila þeirri skoðun með meiri hlutanum og hv. þm. Eygló Harðardóttur.

Óskað hefur verið eftir því að málið verði tekið til nefndar á milli 2. og 3. umr. og að sjálfsögðu verður við því orðið og ég hef gert ráðstafanir til þess að nefndin geti komið saman á mánudaginn til að fara yfir þau atriði sem óskað er eftir að fjalla nánar um. En í raun tel ég að þetta mál hafi fengið mjög ítarlega umfjöllun. Við höfum fengið mjög ítarlegar umsagnir, við höfum farið mjög vel yfir þær en niðurstaðan er sú að við erum ekki sammála og þá verður bara þannig að vera. Við í meiri hlutanum höfum lagt til töluvert miklar breytingar á þessu frumvarpi og ég tel að þó svo að menn hafi kannski ekki gert það að umræðuefni í dag séu þær breytingar allar til bóta. Þær eru til komnar vegna athugasemda og ábendinga sem við höfum fengið í umsögnum og einnig frá minni hlutanum í nefndinni.

Ég sagði í ræðu minni fyrr í dag að ég væri ekki sammála því að Bankasýslan væri óþörf við þær aðstæður sem uppi eru og ég vil ítreka það sem ég sagði þá að það er útlit fyrir að ríkið verði með einhvers staðar á milli 60–75%, a.m.k., af fjármálamarkaðnum á sínum borðum. Eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir benti á í ræðu sinni er þar um umtalsverða fjármuni að ræða sem þarf að sýsla með eins og Bankasýslunni er ætlað.

Ég ætla að spara mér, frú forseti, tímans vegna og þess samkomulags sem fyrir liggur um að reyna að ljúka þingstörfum með fyrra móti í dag að ræða hvernig menn hafa í gegnum tíðina verið í þeim stórhættulega leik sem hér var nefndur, að setja niður stofnanir bara til að setja niður stofnanir. En ég gat ekki stillt mig fyrr í dag um að kalla fram í og minna menn á hvernig staðið var að stofnun Sjúkratryggingastofnunar fyrir tveimur og hálfu ári. Ég sé að hér er allt öðruvísi að verki staðið og miklum mun betur en þá var.

Efnislegar athugasemdir sem ekki er tekið á í áliti meiri hlutans hafa ekki verið miklar í þessari umræðu en ég vil þó, vegna orða hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar, sem að vísu á ekki sæti í viðskiptanefnd, en þar fjölluðum við um þetta, (Gripið fram í.) gera athugasemd við að ekki sé hægt að ráða erlendan ríkisborgara að Bankasýslunni. Þetta er ekki rétt, hv. þingmaður. Ég vil hvetja þingmanninn til að lesa II. kafla í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna um veitingu starfs þar sem talin eru upp almenn skilyrði þess að fá skipun eða ráðningu í starf og hér erum við ekki að tala um embættismenn. Embættismenn eru tilgreindir í IV. kafla laganna og upp taldir tæmandi. Þar skulu menn vera íslenskir ríkisborgarar. Í II. kafla kemur skýrt fram í 4. tölulið 6. gr. að eitt af almennum skilyrðum til að fá skipun eða ráðningu í starf er íslenskur ríkisborgararéttur en síðan segir, með leyfi forseta:

„Þó má ráða ríkisborgara frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu 1) eða Færeyjum 2) til starfa með sömu kjörum og íslenska ríkisborgara. Einnig má víkja frá þessu ákvæði þegar um er að ræða aðra erlenda ríkisborgara ef sérstaklega stendur á.“

Ég tel ástæðu, frú forseti, til að ítreka þetta enda þótt það sé bjargföst afstaða mín að Íslendingar séu ekkert verri öðrum þjóðum til að gegna starfi eins og því sem hér um ræðir. Mér hefur þótt á stundum, þegar menn ræða það hvernig við ætlum að reisa okkur úr rústum, að þeir tali oft af mikilli vanvirðingu um Íslendinga og íslenska ríkisborgara sem margir hverjir eru mjög vel menntaðir og mjög vel hæfir til að taka þátt í uppbyggingu nýs bankakerfis á heilbrigðari grunni en þeim sem áður var. Karlar og konur sem ekki komu nálægt þeirri svikamyllu sem hér hrundi sl. haust. Í frumvarpinu um Bankasýsluna er einmitt sérstaklega tekið á því og kallað eftir því að almenningur og fólk úti í bæ óski eftir því að ganga í störf fyrir ríkið í þessari endurreisn eða uppbyggingu með því að senda valnefndinni hjá Bankasýslunni starfsferil sinn. (TÞH: Popúlismi.) Hv. þingmanni er tíðrætt um „popúlisma“ og ég man í fljótu bragði ekki eftir neinu frumvarpi sem hér hefur verið til umræðu sem hann hefur ekki viðhaft það orð um, en ég deili ekki þeirri skoðun þingmannsins. Ég tel þetta mjög mikilvægt. Ég lýsti því við 1. umr. að einmitt þetta ákvæði kæmi til móts við fjölmargar athugasemdir og ábendingar, kvartanir vil ég jafnvel kalla það, sem þingmenn hafa fengið um að erfitt sé fyrir fólk sem ekki er innvígt í skólabræðrasamfélagið og klíkurnar á Íslandi og er kannski að koma heim úr námi, að komast að í bönkunum jafnvel þótt þeir hafi átt að vera undir ríkinu. Þar hafi enn þá gilt sama gamla reglan um að maður þekki mann og menn hafi þurft að vera með í „geiminu“ til að fá þar vinnu áfram. Ég tel að þetta sé ekki „popúlismi“, ég tel að þetta sé mjög mikilvægt atriði eins og flest þau ákvæði frumvarpsins sem við ræðum.

Ég tek undir það, frú forseti, að þetta mál fari til hv. viðskiptanefndar milli 2. og 3. umr. og hef gert ráðstafanir til að nefndin komi saman á mánudaginn kemur.