137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[14:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er líkt og vanalega að ef borin er fram gagnrýni á einhver mál þá bregst hv. þm. Álfheiður Ingadóttir við af heift og talar um svikamyllur og Sjálfstæðisflokkinn og ... (ÁI: Af hverju tengir hv. þingmaður það tvennt saman?) vegna þess að þú varst að gera það. Það er eitt sem hv. þingmaður verður að skilja — og nú ætla ég að taka upp í mig orð sem eru dónaleg — (Gripið fram í.) í sínum kommahroka, að það er ekki þannig að ...

(Forseti (SF): Ég vil biðja ræðumann að gæta orða sinna.)

Ég geri það. Það er ekki þannig að þau störf sem um er að ræða séu þannig að hægt sé að pikka fólk upp af götunni í að vinna þau. Þetta eru sérfræðistörf, flókin störf og krefjast margra ára þjálfunar. Það verðum við að hafa í huga þegar ráðið verður í þessi störf að það þarf að laða að fólk sem hefur mikla reynslu, mikla þekkingu af þessum störfum. Þetta er ekki þannig að hægt sé að pikka upp fólk af götunni. Ég get ekki orðið heilaskurðlæknir. Það er ekki hægt að setja mig í að vera heilaskurðlæknir. Ég hef engar forsendur til þess. Það er ekki hægt að setja mig upp í vörubíl að láta mig keyra, ég hef engar forsendur til þess, enga reynslu. Það er nákvæmlega eins með þetta, þetta eru sérfræðistörf sem krefjast mikillar þekkingar.