137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

kosningar til sveitarstjórna.

149. mál
[15:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég gleðst yfir því að þetta frumvarp skuli vera komið fram og reyndar er líka komið frumvarp um breytingar á kosningum til Alþingis.

Ég vil taka undir hvert orð sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði um starf nefndarinnar. Ég var fulltrúi Framsóknarflokksins í vinnuhópnum sem fjallaði á sama tíma um þjóðaratkvæðagreiðslur og stjórnlagaþing. Nú er þessi vinna með persónukjörið komin frá þeirri nefnd og liggur fyrir í frumvarpsdrögum.

Eins og komið hefur verið inn á eru skiptar skoðanir um þessi mál hér á landi og má kannski sérstaklega segja að það skeri líka flokka. Markmiðið með þessu frumvarpi eða þessum tveimur frumvörpum sem er búið að leggja fram fyrir þingið er að auka lýðræði og auka persónukjör og aðkomu fólks að því að fá að velja á kjördag það fólk sem það treystir. Að mínu mati er samkvæmt þessu frumvarpi ekki gengið nægilega langt í þá átt því að meginlínan í þessu frumvarpi er sú að það er ekki opnað á að það megi velja persónur á milli flokka, ekki hægt að velja lárétt heldur er valið bundið við einn lista. Til að einfalda málið er það raunverulega í útfærslu svo að segja má að flokkarnir séu að færa prófkjörið inn á kjördag. Mér finnst því ekki nægilega langt gengið í þessu því að með því að auka áhrif kjósenda ættu kjósendur að sjálfsögðu að mega fara líka á milli lista og viðhafa þá persónukjör af öðrum listum treysti þeir öðrum aðilum en þeim sem sitja á þeim lista sem þeir ætla að kjósa til þess að fara með sína rödd inni á Alþingi.

Þetta er aðallega það sem ég hef við málið að athuga. Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni að þó að ég hafi verið í þessari nefnd er það engin skuldbinding af hálfu Framsóknarflokksins um að frumvarpið verði samþykkt af Framsóknarflokknum enda á málið náttúrlega eftir að koma til betri umræðu innan þingflokksins. Þá munum við meta það í framhaldi hvort við stöndum að nefndaráliti um þetta frumvarp.

Það er svo sem ekki meira um þetta að segja á þessu stigi. Ég hef lýst göllunum og að þetta gangi ekki alveg nógu langt en annað í frumvarpinu styð ég persónulega eins og það hvernig talið er upp úr kosningum og að atkvæði nýtist til fulls þeim aðilum sem eru valdir í efstu sæti, að umframatkvæði nýtist þá næsta manni og annað eins og hæstv. dómsmálaráðherra fór svo vel yfir. Þessi útfærsla er sótt í hina svokölluðu írsku leið og þá nýtist hvert atkvæði í raun og veru hjá þeim aðilum sem koma til með að sitja á viðkomandi lista.

Ég er líka hrifin af þeirri hugmynd að hafi kjósandi ekki áhuga á því að taka þátt í persónukjöri gildir atkvæði hans að sjálfsögðu greiddum flokki. Svo var líka mikið rætt í nefndinni að kannski væri erfitt að leggja á kjósendur að merkja við marga en í þessu frumvarpi er tekið á því að í raun og veru ræður kjósandi hvað hann velur marga, einn, tvo, þrjá, hættir þá jafnvel eða hvernig sem það verður, þannig að þau atkvæði nýtast þeim frambjóðenda sem kjósandi kýs.

Þetta eru áherslur mínar eftir vinnu í nefndinni, frú forseti, og ég fagna því að frumvarpið er komið fram þó að ég sé ekki sammála nokkrum atriðum.