137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

kosningar til sveitarstjórna.

149. mál
[15:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. síðasta ræðumanns, Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Markmið með því frumvarpi til laga sem við hér ræðum er gott. Ég hef hins vegar svipaðar efasemdir og hv. þingmaður lýsti og kem til að gera grein fyrir almennum fyrirvara sem þingmenn Vinstri grænna hafa, margvíslegum, við þetta mál. Það er ekki eitt atriði öðrum fremur en fulltrúar Vinstri grænna, þeir Árni Þór Sigurðsson og Arndís Soffía Sigurðardóttir, tóku þátt í störfum nefndarinnar sem samdi frumvarpið og segi eins og aðrir sem hér hafa talað er aðkoma þingflokksins í gegnum þau er ekki yfirlýsing um stuðning við öll þau atriði sem í frumvarpinu felast.

Mínir fyrirvarar eru þeir helstir að verði þetta frumvarp að lögum óbreytt verður ekki hægt að beita neinum ráðum til að rétta hlut kvenna eða fulltrúa frá fámennari byggðarlögum á Alþingi og í sveitarstjórnum. Ég tek undir með þeim sem hafa sagst óttast að með frumvarpinu verði prófkjörin einfaldlega flutt inn í kjörklefann og það með ærnum tilkostnaði.

Ég ætla aðeins að fjalla nánar um stöðu kvenna í ljósi þessa frumvarps og takmarka umfjöllun mína við það þó að af mörgu sé að taka. Ég verð að lýsa ákveðnum vonbrigðum mínum með það hversu kvennasjónarmiðum er lítið sinnt í þessu frumvarpi og í rauninni undarlegt að hlutur kvenna í stjórnmálum skuli ekki fá sterkari umfjöllun og áherslu í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu. Ég fann smáumfjöllun þar sem dregið er í raun úr og í á bls. 17 hvað varðar áhrif persónukjörs almennt á hlut kvenna í sveitarstjórnum þar sem m.a. segir, með leyfi forseta, þar sem komið er inn á þetta, og eins og hér hefur verið bent á, að í nýrri rannsóknum sé það þó verulega dregið í efa að miðaldra karlframbjóðendur séu almennt teknir fram fyrir kvenframbjóðendur í persónukjöri og því geti aðferðin haft neikvæðar afleiðingar fyrir jöfnuð í kynjahlutföllum meðal kjörinna fulltrúa. Í greinargerðinni er þess hvergi getið hvaða rannsóknir hér um ræðir. Í ljósi þess er eðlilegt að maður leiti uppi þær rannsóknir sem nýjastar eru á Íslandi. Ég vil leyfa mér að vitna til rannsóknar sem ber heitið Framboð eða eftirspurn? Árangur kvenna í prófkjörum flokkanna því er einnig fjallað um þessi mál þar. Niðurstaðan er í útdrætti á bls. 207 í veftímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla. Þetta er rannsókn sem sagt á prófkjörum á Íslandi frá 1970–2007 og þar segir, með leyfi forseta:

„Niðurstöðurnar gefa vísbendingar um að ekki sé um viðhorf kjósenda í prófkjörunum að sakast“ — þegar um er að ræða slakan hlut kvenna — „heldur sé skýringarinnar fremur að leita í því að færri konur bjóða sig fram og á það sérstaklega við um forustusæti framboðslistanna.“ Þetta kemur í rauninni þeim konum sem eitthvað hafa verið að vasast í stjórnmálum undanfarin 20–30 ár ekki mikið á óvart.

Þetta er allt og sumt í rauninni sem er fjallað um kvennasjónarmið í greinargerðinni og ég tel það með algerum ólíkindum.

Frú forseti. Neðst á bls. 5 í greinargerðinni segir að persónukjör dragi úr flokksræði eða möguleikum flokkanna til að ákveða sjálfir hvaða fulltrúar þeirra ná kjöri, það er ákveðið markmið með þessu frumvarpi. Ég verð að segja þá skoðun mína að það er mjög slæmt út frá kvennasjónarmiðum því margar rannsóknir sýna einmitt að það eru flokkarnir sjálfir sem hafa mest áhrif á það hvernig konur raðast á framboðslista og þá um leið möguleika þeirra á að ná kjöri einmitt með því hvaða leiðir flokkarnir velja við endanlega röðun á lista. Við þekkjum fléttulista og kvóta. Að vísu hefur þetta hingað til átt frekar illa við hér á landi þar sem prófkjör, opin og án nokkurra slíkra skilyrða eins og kvóta eða fléttu, hafa ráðið ríkjum og flokkarnir sem í hlut eiga og hafa verið með þessi opnu bindandi prófkjör hafa sem slíkir ekki haft nein áhrif á það hvernig raðast á lista, ekki nokkur áhrif í raun. Það að þurfa að draga úr flokksræði eins og sagt er og horfa síðan til prófkjaranna fer ekki alveg saman. Ef flokkar eru með opin bindandi prófkjör þá hafa þeir ekki mikil áhrif á röðun í efstu sæti. (Gripið fram í.) Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Ég sagðist takmarka umfjöllun mína við eitt tiltekið atriði í þessu frumvarpi og ég ætla að halda mig við það þrátt fyrir þetta frammíkall því hér er að koma að atkvæðagreiðslum eins og hv. þingmanni er kunnugt.

Ég tel merkilegt að loksins þegar konur eru að nálgast 50% á Alþingi, 27 konur á móti 36 körlum náðu kjöri í vor, 43% þingmanna eru konur, loksins þegar konur eru að nálgast þetta mark þá skuli endilega þurfa að gera þær leiðir sem greiddu konum þessa leið, þ.e. fléttulistana og kvótana, ógreiðfærar og reyndar bannaðar með öllu. Það vekur upp spurningu hjá mér sem femínista. Er karlveldinu kannski ofboðið? Er það kannski svo að nú skuli vígið varið með hvaða ráðum sem tiltæk eru? Þetta er nokkuð sem ég hlýt að velta fyrir mér sem femínisti eins og ég segi. Stjórnmálabaráttan alla síðustu öld hverfist alltaf um það hve lítill hlutur kvenna í ábyrgðarstöðum hefur verið. Við þekkjum það að þetta hefur verið ákveðin barátta því að fyrir hverja konu sem tekur sæti á lista hefur karl þurft að víkja. Það hefur mikið áunnist eins og hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi en ég óttast, og til þess er ég komin í þennan ræðustól og ekki til að fjalla um annað, að hér sé stigið skref og það stórt skref aftur á bak.

Það er mjög mikilvægt í mínum huga að hv. allsherjarnefnd fari mjög náið ofan í allar rannsóknir sem tiltækar eru á áhrifum persónukjörs á stöðu kvenna og ekki síður, eins og ég nefndi áðan, á stöðu fulltrúa frá fámennari byggðarlögum í sveitarstjórnum og á þingi.

Ég vil nefna eitt atriði í viðbót að það þarf að fara vel og betur ofan í reynslu Norðurlandanna en gert er í greinargerð með frumvarpinu vegna þess að flokksræðið er í rauninni mest á Norðurlöndunum og hlutur kvenna einnig mestur. Það þarf að skoða þetta mjög vel ef markmiðið er að leita uppi eitthvað sem kallað er flokksræði, sem ég benti á að er ekki til hér á landi þar sem prófkjörin eru, að á Norðurlöndunum eru það flokkarnir sem raða eftir sínum reglum og kjósandi setur síðan vægi.

Ég verð að segja að ég treysti hv. formanni allsherjarnefndar, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, að öðrum þingmönnum ólöstuðum, mjög vel til að fara vandlega ofan í þau atriði sem hér hafa einkum verið til umfjöllunar og vænti þess að fundin verði einhver sú leið sem kemur ekki í veg fyrir að það sé hægt að rétta hlut kvenna eða fólks úr fámennari byggðarlögum til þátttöku í ábyrgðarstörfum á vegum sveitarstjórna og Alþingis.