137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

kosningar til sveitarstjórna.

149. mál
[15:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega alveg undrandi á síðasta ræðumanni, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, og vona hennar vegna að hún misskilji allt þetta frumvarp. Í fyrsta lagi hjálpar frumvarpið minnihlutahópum, konum og öðrum þeim sem búa á fámennari landsvæðum út af reiknireglu sem er að finna á bls. 24–25. Ég óska eftir því að hv. þingmaður kynni sér út á hvað þetta frumvarp gengur. Ég veit raunverulega ekki hvert hv. þingmaður er að fara með yfirlýsingum um að með frumvarpinu sé karlaveldinu ofboðið. Ég er femínisti en ég er ekki femínisti á þann hátt að ég sé á einhverjum forréttindum neins staðar í lífinu. Mér er hreinlega ofboðið yfir þessari ræðu.

Grunnurinn er einnig sá að það koma 10 nöfn inn á óraðaðan kjörseðil og kjósendur velja lista á kjördag og raða því fólki upp sem þar er. Það er hvergi minnst á það í þessu frumvarpi enda teljum við það vera sjálfsagt eða alla vega tala ég fyrir mig að það verði fimm karlar og fimm konur, svo einfalt er það. Þá eru flokkarnir búnir að fara í gegnum þessa kynjaskiptingu, „fiftí-fiftí“, getur ekki verið betra, fimm konur, fimm karlar. Ef einhverjir aðrir flokkar hafa fleiri karla, 10 karla og engar konur, þá hlýtur það að sjálfsögðu að gerast í nútímasamfélagi að viðkomandi flokki verði refsað í kosningunum.

Síðan á ekkert að standa í mótmælum og mótmæla „burt með kerfið“ ef ekki má svo breyta nokkrum hlut. Ég lýsi því yfir í þessum ræðustól að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er raunverulega að gefa það í skyn og segja það berum orðum að hún treysti ekki kjósendum á kjördag til að raða fólki á lista út af einhverjum annarlegum sjónarmiðum.