137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

kosningar til sveitarstjórna.

149. mál
[15:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er náttúrlega hráskinnaleikur og útúrsnúningur hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem er undrandi á orðum mínum. Ég verð að segja að þetta er orðið eitthvert einkenni að ef maður er ekki sammála hv. þingmanni þá hafa menn ekki kynnt sér málið nægilega vel. Ég vísa því til föðurhúsanna að ég hafi ekki kynnt mér þetta frumvarp. (Gripið fram í.) Ég hef líka reynslu af því, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, ef maður fengi einu sinni að fara í andsvar án frammíkalls, ég hef líka reynslu fyrir því eftir þátttöku í stjórnmálastörfum allt frá árinu 1978, sem er orðinn býsna langur tími, að það hefur aldrei verið sjálfsagt mál að konur hefðu jafna stöðu á við karla í stjórnmálum. Það höfum við jafnréttissinnar lært á þessari reynslu og við femínistar.

Ég vil segja að það var spurning sem ég setti fram hvort það gæti verið að karlveldinu væri ofboðið núna þegar konur eru að ná því að vera allt að helmingur þingmanna og ná vonandi betri stöðu næst. Ég velti því upp sem spurningu en ekki yfirlýsingu því það er alltaf eftir ein leið ef þessi verður valin og hún bregst konum, þá er eftir leiðin sem hér var farin um árið og það er kvennalisti.