137. löggjafarþing — 47. fundur,  24. júlí 2009.

kosningar til sveitarstjórna.

149. mál
[15:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er ég komin í afar einkennilega stöðu. Ég var að átta mig á því að ég sit í stjórnarandstöðu og ég er farin að verja stjórnarfrumvarp. Hér koma hv. þingmenn upp, formaður allsherjarnefndar og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og finna þessu allt til foráttu. Ja, mikill er misskilningurinn þessa dagana, frú forseti. En það verður að hafa það.

Málflutningur þessara tveggja hv. þingmanna finnst mér fyrst og fremst einkennst af því að það sé hræðsla við breytingar, hræðsla við valdastrúktúrinn og hræðsla við það kannski jafnvel að þetta frumvarp gæti leitt til þess að viðkomandi þingmenn mundu ekki ná endurkjöri. (Gripið fram í.) Við skulum átta okkur á því. Alltaf þegar á að breyta einhverju varðandi þingmenn eru þeir sjálfir mest á móti breytingum. Þetta hefur oft komið fram og í ýmsum málum.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hrópar fram í: Margur heldur mig sig. Ég verð að lýsa því yfir í þessum ræðustól að ég hef ekki þessa skelfilegu upplifun af því að berjast fyrir pólitískri stöðu minni sem kona eins og hv. þingmaður lýsti allt aftur til ársins 1970 að mig minnir að það hafi verið ein þyrnum stráð braut að berjast fyrir pólitísku lífi sínu. Mér finnst það bara leiðinlegt ef þingmaðurinn hefur upplifað sinn pólitíska feril á þann hátt en það er ekki við mig að sakast í því.

Ég er komin upp til að segja í þessari umræðu, í þessari umferð og ég á eftir að láta til mín taka af því að ég er svo heppin að sitja í allsherjarnefnd því að formaður allsherjarnefndar virðist ekki vera svo mjög hrifin af þeim efnisatriðum sem koma fram í þessu frumvarpi, mér finnst þetta afar jákvætt skref. Ég hefði viljað stíga þetta skref enn lengra eins og ég sagði að fólk væri ekki bara bundið við lista sem það kýs og raðar á heldur er ég svo djörf að ég vildi óska þess ef ég verð í framboði aftur að fólk sem kýs Framsóknarflokkinn geti kosið einstaklinga á hinum listunum líka.