137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

ríkisábyrgð á Icesave-samningnum.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel að þannig hafi verið haldið á málum af hálfu meiri hluta þingsins um þetta mál sem við höfum lengi fjallað um í þingi og í þingnefnd að stjórnarandstaðan hafi verið tekin með inn í málið til að reyna að ná breiðri sátt um það. Þannig hefur meiri hluti fjárlaganefndar og aðrar nefndir unnið til að ná breiðri sátt um málið. Mér finnst það misskilningur hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin hafi vísað frá öllum meinbugum sem menn hafa fundið á samningnum. Ýmislegt hefur komið fram sem ég tel virkilega skoðunar virði og meiri hlutinn hefur unnið að því af miklum heilindum að ná breiðri sátt í málinu, farið eftir því sem stjórnarflokkarnir hafa beðið um, auðvitað í einu og öllu að því er varðar gögn, og ég held að í engu máli sé til eins mikið af gögnum og í þessu.

Tillaga sem t.d. var lögð fram í gær af fjárlaganefnd miðaði að því að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem hafa verið uppi í þessu máli, ekki bara hjá stjórnarflokkunum heldur líka hjá stjórnarandstöðunni. Ég hef farið yfir þessar tillögur og mér finnst að þær séu verulega góður sáttagrundvöllur þar sem tekið er á þeim ákvæðum sem menn hefur greint á um í þessum samningi, m.a. að styrkja endurskoðunarákvæðið, Brussel-viðmiðið, efnahagsviðmið sem tengist þá endurskoðunarákvæðinu, þannig að ég tel að af fullum heilindum hafi verið unnið að því af hálfu stjórnarflokkanna að ná breiðri sátt í málinu. Mér finnst ekki öll von úti enn þá, miðað við þá tillögu sem liggur fyrir og miðað við þau sjónarmið sem uppi eru, um að hægt sé að ná breiðri (Forseti hringir.) sátt í þessu máli. (Gripið fram í.)