137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

styrking krónunnar.

[15:13]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega áhyggjuefni eins og fram kemur hjá hv. þingmanni að gengi krónunnar skuli ekki styrkjast meira og betur en verið hefur á undanförnum vikum. En það er alveg ljóst að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðast að því að við getum haft styrkara gengi á krónunni en verið hefur og líka það sem hv. þingmaður nefndi varðandi þá aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þó að það gerist ekki á sömu stundu og við setjum aðildarumsókn fram held ég að það muni gerast til lengri tíma.

Mér fannst hv. þingmaður ýja að því að hér tækjum við allt of mikil lán og það væri óþarfalán sem væri verið að taka bæði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hjá Norðurlöndunum, sem við höfum að vísu ekki fengið enn þá, en ég er algerlega ósammála hv. þingmanni um það. Ég tel nauðsynlegt, m.a. til þess að styrkja gengi krónunnar, að við fáum með eðlilegum hætti aðgang að erlendu fjármagni og ég tel það lið í því að endurreisa hér atvinnulífið og efnahagslífið að við fáum aðgang að fjármagni. Að vísu er það fjármagn sem við fáum frá Norðurlöndunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hugsað til að auka og styrkja gjaldeyrisvaraforða okkar. Það er alveg ljóst. Engu að síður er það líka nauðsynleg forsenda til að endurreisa trúverðugleika að fá þessi lán inn í landið og það mun örugglega greiða fyrir því að við getum fengið lán erlendis sem okkur er nauðsynlegt, m.a. til að byggja upp atvinnulíf okkar, vegna þess að allt það mun stuðla að því að við styrkjum gengi krónunnar.