137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

3. fsp.

[15:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er gott að það er ekkert óljóst hjá hæstv. forsætisráðherra hvað þetta mál varðar. En ég bendi á að í skýrslu sem sænska ríkisstjórnin sendi til sænska þingsins virðist vera einhver misskilningur á ferðinni vegna þess að í því plaggi er tekið fram að með því að tengja norrænu lánveitingarnar við lausn á innstæðutryggingarmálinu þá vilji norrænu ríkin koma í veg fyrir að fjármunirnir frá norrænu lánunum renni beint til Breta og Hollendinga.

Ég er alveg sammála hæstv. forsætisráðherra um að ég hugsa að engum manni á Íslandi hafi dottið í hug að norrænu lánin yrði notuð til þess að borga beint til Breta og Hollendinga. En norrænu ríkin, miðað við þessa skýrslu sem Fredrik Reinfeldt meðal annars skrifaði undir til sænska þingsins, nefna þetta sem skýringu. Ég velti því fyrir mér hvort forsætisráðherra Íslands hafi rætt við (Forseti hringir.) kollega sína sína út frá þessum forsendum því að ef norrænu ríkin eru að taka jafnafdrifaríka ákvörðun byggða á einhverjum misskilningi er það stórpólitískt mál.