137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

4. fsp.

[15:24]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir með hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni um nauðsyn þess að sem best gangi við rannsókn þessara mála og ef einhver von er til þess að endurheimta fé þá er það vitaskuld sameiginlegt hagsmunamál og áhugamál okkar allra.

Varðandi samstarf við erlendar stofnanir þá er vitaskuld talsvert um það. Sumt af því er reyndar eitthvað sem var til staðar áður en þeir atburðir gerðust sem hafa nú verið mjög til umfjöllunar undanfarna mánuði, þ.e. reglubundið samstarf og samvinna Fjármálaeftirlits, skattyfirvalda og annarra slíkra. Því til viðbótar hefur verið leitað eftir auknu samstarfi og reyndar hefur það verið stundum boðið að frumkvæði erlendra aðila eins og fréttir frá Serious Fraud Office í Bretlandi nú í vikunni bera með sér.

Það er mitt mat að þetta samstarf sé allt hið besta mál. En það mun ekki standa á mér ef menn sjá einhverjar leiðir til þess að auka það. Ég hef lagt áherslu á það við þá stofnun sem heyrir undir mig og sinnir þessum málum, þ.e. Fjármálaeftirlitið, að það leiti eftir samstarfi við erlenda aðila og stuðningi eftir því sem hægt er. Ég geri fastlega ráð fyrir því að þær stofnanir sem heyra undir önnur ráðuneyti eins og fjármálaráðuneytið sem sér um skattinn og dómsmálaráðuneytið sem vitaskuld hefur almenn löggæslumál á sinni könnu hafi gert slíkt hið sama.