137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

5. fsp.

[15:26]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var frágengið í október á síðasta ári og fyrsta greiðsla samkvæmt því prógrammi barst hingað til lands um það bil mánuði síðar og greiðslur samkvæmt þessari áætlun áttu að skila sér síðan ársfjórðungslega eftir það. Veruleikinn er hins vegar sá að enn hafa engar frekari greiðslur borist og umræðan um þessa fyrirgreiðslu hefur kannski fyrst og síðast snúist allt frá þessum tíma um það hvort við fáum lánin í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða ekki.

Það er hins vegar nú á síðustu dögum og vikum að umræðan er farin að tengjast því sem meðal annars hefur komið upp hér við þessa umræðu í dag, þ.e. að spurningin sé sú hvort þetta sé ólán í láni sem þjóðin er að fá í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Meðal annars hafa virtir hagfræðingar tjáð sig í þá veru að þau lán sem ráðgert er að taka, erlendu lán, að það megi setja spurningarmerki við þau. Þær upplýsingar hafa farið út í umræðu að næsti gjalddagi erlendra lána ríkisins sé ekki fyrr en 2011 og því er eðlilegt að spurt sé hvort menn séu að ofmeta þörfina fyrir þennan gjaldeyrisforða sem menn hyggjast byggja upp.

Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort fyrir liggi sjálfstætt mat hjá ríkisstjórninni á þörf fyrir gjaldeyrisforða ríkissjóðs þá í ár og jafnvel á næsta ári einnegin. Það væri ágætt að fá upplýsingar um það.