137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

5. fsp.

[15:30]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að vissulega má deila um forsendurnar fyrir því mati sem fram þarf að fara. En ég held að það gæti verið ágætt, fróðlegt og upplýsandi fyrir þing og alþjóð einnig að fá að sjá þetta mat og fá það lagt fram. Það er hins vegar umdeilanlegt og væri vissulega líka athyglinnar og umræðunnar virði að fá frekari umræðu og dýpri um það í hverju sú hjálp ætti að vera fólgin sem í þessu láni felst og haldið er fram af talsmönnum þess fyrir íslenskt efnahagslíf og endurreisn þess sem allir kalla eftir að hefjist sem fyrst. Nánari greiningu og umræðu um þær forsendur sem menn vilja sjá í þeirri lántöku sem fyrirhuguð er væri mjög gott að fá fram. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að upplýsa sínar skoðanir og sína sýn á það hvernig þessi erlenda lántaka muni gagnast beint í því (Forseti hringir.) mikilvæga verkefni sem fram undan er.