137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

5. fsp.

[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að ákaflega margt hangi á spýtunni í þessum efnum sem tengist hvað öðru. Við vitum mikilvægi þess að ná stöðugu gengi og að gengi krónunnar styrkist. Við vitum þörfina fyrir að verðbólga lækki og að við getum lækkað hérna vexti. Við vitum hver þörfin er til að opna aðgang að erlendu fjármagni þannig að fyrirtæki geti endurfjármagnað eldri skuldir og eftir atvikum sótt sér nýtt fjárfestingarfé. Allt hangir þetta saman og snýst um það að skapa hér aftur eitthvert eðlilegt ástand, að eyða óvissu þannig að við byggjum upp endurnýjað traust og trúverðugleika á íslenskum efnahagsmálum. Þetta er hluti af stórri heildarmynd sem öll verður að ganga upp saman. Við þurfum að ryðja hindrunum úr vegi hverri á fætur annarri. Okkur hefur orðið talsvert ágengt í því en það eru brekkur eftir svo sannarlega sem við þurfum að komast upp.