137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vegna ræðu hv. þingmanns áðan er kannski rétt að undirstrika, eins og segir í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar, að þær breytingar sem hér eru lagðar til eru fyrsti þátturinn í breytingum á flutningi verkefna til efnahags- og viðskiptaráðuneytis, þ.e. Seðlabanka Íslands og Hagstofu, frá forsætisráðuneyti og yfir til fagráðuneytisins. Eins og hv. þingmaður kom inn á er það auðvitað stóra atriðið í þessum tillögum. Af því að hv. þingmaður talaði um að hann sæi ekkert í þessu sem kallaði á að gera þessar breytingar núna, að þetta mætti vel bíða fram á haust, má alveg færa fyrir því gild rök að nú sé bráðavandi uppi í samfélaginu sem m.a. endurspeglaðist hér sl. haust þegar bankahrunið varð og í ljós kom að það vantaði yfirsýn yfir efnahagsmál Íslendinga, þau væru samræmd og höfð á einum stað. Þess vegna er mjög brýnt að tekið verði af skarið núna strax og þessi málefni flutt. Það taki gildi núna strax með haustinu því að það veit það enginn í þessum sal hvenær nýtt frumvarp frá ríkisstjórninni kemur fram um heildarbreytingu og verkaskiptingu á Stjórnarráði Íslands, hvort það verður í september, október eða hvenær. Eins og kom fram á nefndarfundi allsherjarnefndar gátu embættismenn ekkert sagt til um það nákvæmlega. Það er hins vegar afar brýnt að þetta komist á koppinn sem allra fyrst.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um sparnað er, eins og kom fram á nefndarfundi, á þessum tíma ekkert hægt að fullyrða um hann til lengri tíma litið. Við vitum að stjórnkerfisbreytingar taka tíma og ákvarðanir sem teknar eru í dag leiða ekki til sparnaðar strax á morgun. En þegar til lengri tíma er litið er reynslan sú að af vel unnum og útfærðum stjórnkerfisbreytingum hlýst sparnaður.