137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa það að þó að ég geti tekið undir það, eins og ég gerði í ræðu minni, að reynsla okkar frá síðasta hausti geri það að verkum að rétt sé að fara í endurskoðun á verkaskiptingu, stofnanakerfi og öðru slíku sem varðar fjármálamarkaði og efnahagsmál breytir það ekki þeirri skoðun minni að það er ekkert í þessu frumvarpi sem leysir neinn bráðavanda sem við okkur blasir þessa dagana eða næstu vikurnar. Þetta er langtímamál, þetta er spurning um að breyta kerfinu þannig að það virki betur til lengri tíma. Þess vegna sakna ég þess að ekki sé lagt á borðið hvernig ríkisstjórnin sér þessa hluti fyrir sér til lengri tíma og ég ítreka að það er ekkert í þessu frumvarpi sem leysir neinn vanda núna á næstu vikum.

Það er líka rétt sem fram kemur hjá hv. þm. formanni allsherjarnefndar að auðvitað eru stjórnkerfisbreytingar ekki til þess fallnar að ná fram hagræðingu og sparnaði strax, það gerist sjaldan þannig, það er alveg rétt. En fjármálaráðuneytið sjálft metur það þannig að þetta frumvarp með þeim breytingum sem í því felast leiði ekki til neins sparnaðar eða hagræðingar yfir höfuð heldur bara flutnings á kostnaði. Það sem ég benti á í ræðu minni var að núna á þessum sparnaðar- og niðurskurðartímum skuli ríkisstjórnin missa af fyrsta tækifærinu til þess að ákveða einhverjar breytingar sem leitt geta til hagræðingar og sparnaðar því að þetta frumvarp gerir það ekki.