137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held reyndar að við hv. þm. Birgir Ármannsson séum býsna samstiga í þessum málum varðandi eflingu og styrkingu Stjórnarráðsins og breytingu á verkaskiptingu milli ráðuneyta. Það sem okkur greinir kannski á í þessu máli er hvort það frumvarp sem hér liggur fyrir hafi verið nauðsynlegt á þessum tíma. Hv. þingmaður telur, ef ég skil hann rétt, að þetta megi bíða. Ég segi hins vegar varðandi efnahagsmálin og flutning efnahagsmálanna yfir til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins að ég tel að ekki sé eftir neinu að bíða. Ég ætla ekkert að fullyrða um það en ef stjórnarráðsfrumvarpið í heild sinni kemur ekki fram strax á haustþingi gæti það hugsanlega skaðað þennan málaflokk, ef við værum ekki núna búin að ganga frá því að þessi verkefni færist yfir til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, vegna þess að það er jú áfram gert ráð fyrir því að forsætisráðherra sé samræmingaraðili og verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Ég held að forsætisráðherra gefist betra tóm til þess að sinna eftirlitshlutverki og hafa samræmingarhlutverk gagnvart öðrum ráðuneytum ef efnahagsmálin eru öll vistuð undir einu og sama ráðuneyti og að það gerist strax í haust. Ég sé ekki að það sé eftir neinu að bíða í þeim efnum, frú forseti.