137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir að vekja athygli á þeirri reynslu sem þó er komin af strandveiðunum sem Alþingi samþykkti fyrr í sumar. Reyndar er tímabilið ekki búið og reynslan ekki fullljós. Hún verður metin í fyllingu tímans þegar þetta fyrsta reynslutímabil er yfirstaðið. Það mun háskólasetur Vestfjarða gera í samstarfi við Fiskistofu og fleiri aðila. En það er rétt að það er farið að glitta í reynsluna af þessu kerfi og af orðum þingmannsins er alveg ljóst að menn geta horft á sama hlutinn, á glas sem er hálft af vatni, sumir sjá það hálftómt og aðrir sjá það hálffullt.

Ég vil vitna í hafnarstjórann á Ísafirði í viðtali sem tekið var við hann í Sjómannablaðinu Ægi þar sem hann segir:

„Strandveiðin hleypir lífi í allt.“ Það er reynslan af þessu kerfi. 505 bátar á sjó, 4.663 landanir og um 4.000 tonn af fiski komin á land.

Það er sú reynsla sem við sjáum glitta í á þessari stundu og ég verð að segja að líf í höfnum og atvinna í bæjum þar sem var deyjandi líf skiptir verulegu máli og er kannski þyngsti vitnisburðurinn um það sem hefur átt sér stað í sumar.

Hitt er annað mál að það eru ákveðnir hlutir sem augljóslega þarf að skoða betur eins og varðandi svæðaskiptinguna. Við sjáum það á tölum frá Fiskistofu og víðar að það er mjög misjafnt hversu mikið menn hafa tekið upp á svæðunum og það gefur fullt tilefni til að setjast vel yfir það áður en lengra verður haldið.

Með öðrum orðum, þetta kerfi rýfur lokun kvótakerfisins. Það sýnir það líka að ekki er verið að henda fiski, fiskurinn kemur á land. (Forseti hringir.) Það er líf í höfnum og góð reynsla.