137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Í fréttum í gærkvöldi kom fram í orðum aðjúnkts í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands að hún ráðleggur formönnum stjórnarflokkanna að óska eftir samningafundi með Bretum og Hollendingum um Icesave-skuldbindingarnar. Það sé betra að funda nú um málið þar sem staða ráðherranna gæti veikst mjög ef Alþingi mundi fella samninginn. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra eigi ekki að bíða með að tala við Breta og Hollendinga þar til Alþingi hefur komist að niðurstöðu.

Ég hef því mikinn áhuga á því að spyrja hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, formann utanríkismálanefndar, hvort hann viti til þess hvort formenn stjórnarflokkanna hafi óskað eftir samningafundi með Bretum og Hollendingum. Ef svo er ekki, hvort hann hyggist beita sér fyrir að samskiptaleið verði á ný opnuð gagnvart þessum þjóðum um Icesave og þá stöðu sem nú er komin upp þar sem mikil andstaða er hér á þingi og meðal þjóðar gagnvart núverandi samningi. Það kom síðan fram í orðum hv. þm. Bjarna Benediktssonar í fréttum að hann telur að í þessu máli skipti pólitísk samskipti öllu máli. Það var hins vegar mikið áhyggjuefni að heyra það í lok þeirrar fréttar þegar hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir var spurð út í hvort það væri einhver varaáætlun til eða eitthvað þess háttar svaraði hún, með leyfi forseta, „að veltu menn fyrir sér stöðunni gæti það komið upp“. Það er mjög mikið áhyggjuefni að heyra þetta og þess vegna vona ég að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson geti aðeins upplýst okkur um hvort þetta sé það sem er í gangi, að menn ætli bara að velta hlutunum fyrir sér, eða hvort búið sé að opna einhverja samskiptaleið við Breta og Hollendinga.