137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar þetta svokallaða strandveiðifrumvarp var afgreitt í vor vöruðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins mjög við því að verið væri að hleypa af stað illa undirbúnu dagakerfi í fiskveiðum, ekki vegna þess að við teldum ekki að það væri hægt að stjórna fiskveiðum með sóknartengdum hætti, við vissum auðvitað að það er hægt en menn verða þá að vanda sig og vita hvað þeir eru að fara út í.

Það er rétt sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir segir, það er auðvitað líf í höfnum þá fáeinu daga á mánuði sem þessir bátar landa, en það er auðvitað ekki á miklu að byggja þegar það er eins og t.d. á stærsta fiskveiðisvæðinu, að bátarnir fá kannski að róa 3, 4, 5 daga í mánuði 2–3 mánuði á ári.

Við vöruðum við nokkrum atriðum og hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur farið yfir þá að hluta til. Við sögðum t.d. að það væru engar líkur á því eins og málin voru undirbúin að þetta mundi leiða til þeirrar nýliðunar sem að var stefnt. Reynslan sem við höfum af þessu máli er strax orðin sú að það er alveg augljóst að þetta hefur ekki leitt til neinnar nýliðunar, fjarri því. Í öðru lagi vöruðum við mjög alvarlega við þeirri svæðaskiptingu sem var lögð til grundvallar í þessu frumvarpi og í þessum lögum og í rauninni tók meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar undir þetta sjónarmið okkar og beindi því til ráðherrans að hann mundi endurskoða svæðaskiptinguna. Ráðherrann kaus að svara því með þeim hætti að gera engar breytingar. Þrátt fyrir óskir, vilja og ábendingar og texta meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar ákvað ráðherrann að hirða ekkert um það, hunsa algerlega tilmæli meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og nú liggur fyrir að svæðaskiptingin ofan á allt saman hefur líka mistekist. Á svæði A, stærsta svæðinu, veiða menn kvótann sinn á 3, 4, 5 dögum í mánuði. Á öðrum svæðum ná menn ekki kvóta sínum. Það er alveg ljóst að viðvörunarorð okkar áttu því miður fullan rétt á sér. Þetta mistókst hjá hæstv. ríkisstjórn vegna þess að málið var illa undirbúið (Forseti hringir.) alveg eins og við sögðum frá fyrsta degi.