137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Við þær aðstæður sem uppi eru í íslensku samfélagi ríður mjög á að við búum atvinnulífi okkar og atvinnustarfsemi allri sem besta umgjörð. Það er ekki á bætandi það áfall sem orðið hefur þótt við köllum ekki fram aukin vandræði í meginundirstöðuatvinnugrein okkar, sjávarútveginum.

Ég hef beint máli mínu í þessari umræðu til hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Ég ætla að endurtaka þá spurningu mína sem snýr að því að það liggur fyrir að ekki er verið að veiða meiri fisk með því fyrirkomulagi sem sett var af stað. Það er nákvæmlega sama aflamagn og átti að fara af stað með, sá afli átti að skiptast niður með hinu svokallaða byggðakvótakerfi. Aflinn er sem sagt hinn sami, en það er alveg ljóst og hefur sýnt sig núna að bátunum sem sækja þennan sama afla hefur fjölgað alveg gríðarlega. Það þýðir með öðrum orðum, frú forseti, að það er meiri útgerðarkostnaður. Það kostar meira að afla þessa fiskjar en áður. Það hefur dregið úr hagkvæmni fiskveiða á Íslandsmiðum vegna þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn ákvað þetta kerfi.

Ég gef lítið fyrir, og ekki neitt, yfirlýsingar um að einhverja örfáa daga í hverjum mánuði sé meira líf á bryggjunni. Það er ekkert líf sem er grundvallað á því að menn dragi úr hagkvæmni fiskveiðistjórnarkerfisins. Það gefur augaleið, og ég spyr enn og aftur: Er það mat hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, sem var í forsvari þegar þetta mál fór í gegnum þingið, að það sé betra fyrir Ísland að auka útgerðarkostnaðinn, hækka kostnaðinn við fiskveiðarnar, að gefnum sömu tekjum? Er það virkilega gott fyrir byggðirnar í landinu, gott fyrir ríkissjóð, gott fyrir almenning, að meiru sé kostað til til að sækja þann afla sem átti að sækja? Ég trúi því að svo sé ekki, það sé einmitt betra að við reynum að lágmarka kostnaðinn og hámarka tekjurnar. Enn og aftur, hv. þingmenn, stendur þetta þannig af sér að (Forseti hringir.) tekjurnar eru óbreyttar en kostnaðurinn hefur aukist. Má ekki ljóst vera að það hefði betur verið heima setið en af stað farið?