137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er skemmtilegt, það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað og ausið úr skálum sínum yfir strandveiðikerfið. Annars vegar er talað um að þetta kerfi hafi hreint ekki leitt til nýliðunar og það sé eitt stærsta vandamálið. Hins vegar er talað um að hér séu 500 nýir bátar á sjó og hv. þm. Jón Gunnarsson hefur áður talað í tengslum við öryggismál sjómanna um að þetta séu upp til hópa reynslulausir menn sem stefni beint í opinn dauðann ef strandveiðikerfið verði innleitt. (Gripið fram í.)

Ég segi bara eins og er, þær vísbendingar sem við höfum á þessari stundu um reynsluna af þessu kerfi er að líf sé komið í hafnir og að strandveiðarnar gangi vel. Þó að hv. þm. Illugi Gunnarsson segi að hann gefi lítið fyrir líf í höfnum kem ég frá byggðarlagi, hv. þingmenn, þar sem dauði hefur verið yfir höfnum, þar sem dauði hefur verið yfir atvinnulífi, og ég skynja þann vonarneista sem hefur kviknað við það sem nú er að gerast í höfnum víðs vegar um landið. (Gripið fram í: … Súðavík …) Vandamálið er hins vegar það að betur hefði mátt huga að svæðaskiptingunni og nú sýnir reynslan að megnið, ef ekki bara allur sá fiskur sem mátti veiða á svæði A, þ.e. því svæði sem ég er fulltrúi fyrir, er búið eða svo gott sem. Vissulega hefði mátt huga að því við lagasetninguna í sumar að gefa ráðherra heimild til að flytja á milli svæða því að á hinum svæðunum hafa 30–50% verið veidd af úthlutuðum kvóta. Það er nokkuð sem þarf að skoða í ljósi reynslunnar.

Við skulum bara gefa þessu þann tíma sem þarf til að sjá hvað út úr þessu kemur og laga svo það sem laga þarf þannig að þetta geti áfram verið (Forseti hringir.) sú lyftistöng sem það nú þegar er orðin.