137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, kærlega fyrir svör hans. Það var mjög ánægjulegt að heyra í þeim að einhver vinna væri í gangi í utanríkisráðuneytinu til að bregðast við þeirri stöðu sem hugsanlega kemur upp og hefur verið að koma upp í þinginu. Ég verð að segja fyrir mína parta að það er ákveðinn léttir að enn á ný skuli einhver vera í ríkisstjórninni sem sýnir aðeins meiri skynsemi en núverandi forustumenn stjórnarflokkanna. Menn virðast ekki algerlega vera tilbúnir til að segja að þeir ætli bara að skoða málin þegar að því kemur, heldur virðist einhvers konar varaáætlun þegar vera í undirbúningi. Mér líður aðeins betur við það og ég vona svo sannarlega að við getum haldið áfram að hlusta á það sem sérfræðingar í þessum málum segja.

Ég bendi á það sem ég hafði eftir þessum aðjúnkt í stjórnmálafræði, hún hefur einmitt kennt samningatækni við Háskóla Íslands í meistaranáminu í alþjóðasamskiptum þannig að þegar maður heyrir frá henni það sem hún ráðleggur formönnum stjórnarflokkanna, að óska eftir samningafundi og opna þá samningaleiðir, og samskiptaleiðir sérstaklega hvað varðar þetta mál, er ráðlegt að vita að það er verið að undirbúa hvað þarf að gera. Ég geri mér svo sem fyllilega grein fyrir að einhverjir starfsmenn utanríkisráðuneytisins eru kannski að sinna öðrum málum, svo sem eins og einu stykki ESB-umsókn. Ég vona sannarlega að menn taki þetta mjög alvarlega og að formaðurinn fylgi þessu máli vel eftir.