137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir svörin. Þau voru reyndar dálítið þunn og hann svaraði ekki spurningunni sem ég bar fram.

Það er óumdeilanlegt að stofnun og vöxtur Icesave var undir hans tíð sem viðskiptaráðherra og hann var yfir Fjármálaeftirlitinu. Ég spyr hann aftur: Hvaða nauður rak hann til þess að gefa þá yfirlýsingu á forsíðu Morgunblaðsins að um væri að ræða þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Íslendingar hefðu þurft að semja um? Hann hefði alveg getað sleppt þessu.

Ég spyr hann: Hvaðan kom honum sú þekking og vitneskja að Íslendingum bæri þjóðréttarleg skuldbinding til að greiða þessa reikninga? Hvað þýðir það yfirleitt? Hann svaraði hvorugu. Hins vegar fór hann að tala um flokkseigendafélag Sjálfstæðisflokksins og ég vildi gjarnan fá heimilisfangið á því. Ég hef aldrei kynnst því en það getur vel verið að það sé einhvers staðar til og hv. þingmaður viti hvar það er. (Gripið fram í.) Ég sé ekki hvað það skiptir máli, þetta er útúrdúr. Ég vil fá að vita hvaða nauður rak hæstv. viðskiptaráðherra Íslands á þeim tíma til að gefa þvílíka yfirlýsingu í Morgunblaðinu viku eftir hrun.